Hoppa yfir valmynd

Yfirfærsla tíðniheimildar á 800 MHz tíðnisviðinu frá 365 miðlum til Vodafone samþykkt

Túngumál EN
Heim

Yfirfærsla tíðniheimildar á 800 MHz tíðnisviðinu frá 365 miðlum til Vodafone samþykkt

18. maí 2017

Þann 13. mars 2017 barst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) beiðni frá 365 miðlum hf. um að færa B heimild félagsins um 2x5 MHz á 800 MHz tíðnisviðinu yfir á félagið B-365 ehf.

Þar sem félagið B-365 ehf. var dótturfélag 365 miðla hf. og því innan sömu samstæðu samþykkti PFS umbeðna yfirfærslu tíðniréttindanna á grundvelli 3. mgr. 8. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, með bréfi dags. 14. mars 2017.

Það var skilningur PFS að ástæða þessarar ráðstöfunar 365 miðla hf. væru áformuð kaup Fjarskipta hf. (Vodafone) á allri fjarskipta- og ljósvakastarfsemi 365 miðla hf., sem telst vera samruni í skilningi samkeppnislaga.

Því var það sérstaklega tekið fram í bréfi PFS að ef umrædd kaup Vodafone tækju til félagsins B-365 ehf. þá yrði heimild til yfirfærslu tíðniréttindanna til Vodafone metin á grundvelli 1. mgr. 8. gr. fjarskiptalaga, sem fjallar um yfirfærslu tíðniréttinda við samruna.

PFS hefur nú borist erindi frá Vodafone, dags. 6 apríl 2017, um kaup á félaginu B-365 ehf., ásamt beiðni um að yfirfæra B heimildina á 800 MHz tíðnisviðinu yfir á nafn og kennitölu Fjarskipta hf. Er beiðnin sett fram með fyrirvara um að Samkeppniseftirlitið samþykki umræddan samruna.

PFS hefur metið beiðni Vodafone og telur að ekki sé unnt að fallast á hana án skilyrða. Að áliti PFS myndi þessi viðbót við tíðniheimildir Vodafone raska samkeppni ef umrædd tíðniréttindi yrðu yfirtekin af Vodafone án þess að þeim fylgdu sambærilegar skuldbindingar um uppbyggingu og útbreiðslu háhraða farnetsþjónustu og munu gilda fyrir tíðniheimildir á 700 og 800 MHz tíðnisviðunum sem boðnar verða upp í næsta mánuði. Þá er það álit PFS að yfirtaka Vodafone á umræddum tíðniréttindum hafi ekki í för með sér neikvæð áhrif á skipulag tíðnirófsins.

Á grundvelli 1. mgr. 8. gr., sbr. og 3. mgr. 12. gr. fjarskiptalaga hyggst PFS því samþykkja yfirfærslu B heimildar um 2x5 MHz á 800 MHz tíðnisviðinu á nafn og kennitölu Fjarskipta hf. (Vodafone) með eftirfarandi skilyrðum:

  • Útbreiðsla háhraða farnetsþjónustu skal vera í samræmi við eftirfarandi kröfur:
 Almennar útbreiðslu og uppbyggingarkröfur
Hraði   Dagsetning  Hlutfall*
10 Mb/s  31. des. ´18 95,00%
30 Mb/s  31. des. ´20  97,00% 
30 Mb/s   31. des. ´22 99,00%
50 Mb/s   31. des. ´24 95,00%
 *Hlutfall lögheimila og vinnustaða óháð landssvæði 

 

  • Útbreiðsla háhraða farnetsþjónustu utan byggðar skal vera í samræmi við skuldbindingar sem félagið hefur tekist á hendur og lýst fyrir PFS, sbr. uppbyggingaráætlun, dags. 17 maí 2017, sem verður viðauki tíðniheimildarinnar.
  • Ekki er heimilt að hefja notkun á tíðnisviði B heimildar á 800 MHz tíðnisviðinu fyrr en tíðniheimildir í tíðniuppboði PFS í maí 2017 hafa verið gefnar út.

Auk framangreindra skilyrða verða aðrir almennir skilmálar tíðniheimildar B á 800 MHz tíðnisviðinu uppfærðir til samræmis við skilmála tíðniheimildanna sem verða boðnar upp á 700 og 800 MHz tíðnisviðunum síðar í þessum mánuði, s.s. varðandi gæði þjónustu og mælingar á þeim.

Skilmálabreytingarnar munu taka gildi þann 22. maí 2017 og eru gerðar með fyrirvara um að Samkeppniseftirlitið samþykki samruna Vodafone og 365 miðla ehf.

 

 

 

 

Til baka