Hoppa yfir valmynd

Uppboð á tíðniheimildum fyrir háhraðafarnetsþjónustu hafið

Tungumál EN
Heim
22. maí 2017

Í morgun hófst rafrænt uppboð á tíðniheimildum fyrir háhraðafarnetsþjónustu hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS).  Um er að ræða tíðnir á 700, 800, 2100 og 2600 MHz tíðnisviðunum og er þetta langstærsta úthlutun á tíðnum fyrir farnetsþjónustur hér á landi frá upphafi. Þátttakendur í uppboðinu eru fjórir; Fjarskipti hf. (Vodafone), Nova ehf., Síminn hf. og hollenska fjarskiptafyrirtækið Yellow B.V.

Á undanförnum árum hefur notkun gagnamagns í farnetum vaxið mjög hratt og á síðustu þremur árum hefur orðið nærri þreföldun. Þetta sést vel á myndinni hér fyrir neðan sem er af gagnamagni á farsímaneti úr nýjustu tölfræðiskýrslu PFS um íslenska fjarskiptamarkaðinn.

 

Súlurit - gagnamagn í farsímanetum 2010 - 2016

Til að bregðast við þessari þróun er nauðsynlegt að skapa aukið rými í farnetum með því að taka fleiri tíðnir í notkun til að anna gagnaflutningi. Ætla má að sú úthlutun á tíðnum sem nú fer fram sé til þess fallin að styðja við frekara og fjölbreyttara framboð á háhraðafarnetsþjónustu á næstu árum, sem verður hluti af því stafræna umhverfi sem nefnt hefur verið internet hlutanna (e. Internet of Things).

Eitt af meginmarkmiðum fjarskiptalaga er að tryggja gott aðgengi landsmanna að fjarskiptaþjónustu, auk þess sem fjarskiptaáætlun Alþingis kveður á um metnaðarfull markmið um útbreiðslu á háhraða farnetsþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun stuðlar að því að þessum markmiðum sé náð m.a. með því að mæla fyrir um uppbyggingar- og útbreiðslukröfur í skilmálum tíðniheimilda, en eftirfarandi kröfur eru gerðar varðandi notkun á tíðnum á 700 og 800 MHz tíðnisviðunum: 

 Almennar útbreiðslu og uppbyggingarkröfur
Hraði   Dagsetning  Hlutfall*
10 Mb/s  31. des. ´18 95,00%
30 Mb/s  31. des. ´20  97,00% 
30 Mb/s   31. des. ´22 99,00%
50 Mb/s   31. des. ´24 95,00%
 *Hlutfall lögheimila og vinnustaða óháð landssvæði 

Eins og sjá má af töflunni hér fyrir ofan mun háhraðafarnetsþjónusta með 30 Mb/s gagnaflutningshraða ná til nánast allra landsmanna í lok árs 2022, auk þess sem gagnaflutningshraði upp á 50 Mb/s mun standa flestum landsmönnum til boða í lok árs 2024.

Auk þess sem kemur fram í töflunni eru gerðar kröfur um uppbyggingu á fjarskiptasendum í dreifbýli og vegakerfi sem tengdar eru þessum sömu tíðnisviðum, 700 og 800 MHz. 

Miðað við þau lágmarksboð sem gilda fyrir þær tíðniheimildir sem nú eru boðnar upp er ljóst að tugir milljóna króna muni fást fyrir þær, ef tíðniheimildirnar ganga út. Samkvæmt lögum um fjarskiptasjóð renna þessar tekjur til fjarskiptasjóðs sem nýtir féð til uppbyggingar á fjarskiptainnviðum á svæðum sem þarfnast opinbers stuðnings.

Sjá nánari upplýsingar um uppboðið á sérstakri upplýsingasíðu hér á vefnum. 

 

 

 

Til baka