Hoppa yfir valmynd

Ný tölfræðiskýrsla um fjarskiptanotkun á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum: Gagnamagn í farnetum heldur áfram að aukast hratt.

Túngumál EN
Heim

Ný tölfræðiskýrsla um fjarskiptanotkun á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum: Gagnamagn í farnetum heldur áfram að aukast hratt.

22. júní 2017

Í dag kemur út skýrsla sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er áttunda árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og Eystrasaltslöndin hafa einnig verið með síðustu ár.

Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta.

Íslendingar eru eins og áður með flestar fastar háhraðainternettengingar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða 30 Mb/sek. eða meira. Ástæðuna má rekja til fjölgunar VDSL og ljósleiðaratenginga hér á landi.

Háhraðainternettengingum með 100 Mb/sek og meira hefur fjölgað í öllum löndunum sem taka þátt í samanburðinum. Þar eru Íslendingar í öðru sæti á eftir Svíum, en flest löndin eru fyrir ofan meðaltalið í Evrópusambandslöndunum. Svíar eru einnig lang efstir hvað varðar áskriftir þar sem tæki eru í sjálfvirkum samskiptum við önnur tæki. Þetta eru svokallaðar tæki í tæki eða TíT áskriftir sem á ensku kallast Machine to Machine eða M2M.

Gagnamagnsnotkun í farnetum heldur áfram að aukast hratt í öllum löndunum en þar bera Finnar höfuð og herðar yfir hinar þjóðirnar. Varðandi þróunina í sjónvarpsdreifingu yfir internetið (IPTV) skera Íslendingar sig úr og eru með langflestar áskriftir miðað við höfðatölu, enda hefur framboð á kapalsjónvarpi og sjónvarpi um gervitungl ekki verið til staðar hér á landi eins og í samanburðarlöndunum.

Íslendingar, Danir og Svíar skera sig úr þegar litið er til áskrifta að fastlínusíma með IP tækni. Aukningin hér á landi skýrist m.a. af fjölgun ljósleiðaratenginga hérlendis og fyrirhugaðri lokun á talsímakerfinu PSTN sem áætlað er að leggja niður árið 2020. Þess ber að geta að hinir almennu notendur eiga ekki að verða varir við þá breytingu.

Sjá skýrsluna í heild (á ensku):

Telecommunication Markets in the Nordic and Baltic Countries 2016

Tölfræðina má einnig skoða í gagnagrunni hennar sem geymdur er hjá systurstofnun PFS í Svíþjóð, Post- og telestyrelsen:
http://statistik.pts.se/PTSnordic/NordicBaltic2016/

Hér á vefnum má einnig nálgast allar samanburðarskýrslurnar frá upphafi á einum stað.

 

Til baka