Hoppa yfir valmynd

Viðmið um landfræðilegt umfang alþjónustu í fjarskiptum – Niðurstaða samráðs

Tungumál EN
Heim
18. ágúst 2017

Um næstu áramót fellur úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 4/2016 um útnefningu Mílu ehf. (Míla) með alþjónustukvöð um að útvega og viðhalda tengingu við almenna fjarskiptanetið.

Í ljósi þess að fleiri fyrirtæki og sum sveitarfélög eru farin að leggja aðgangsnet þarf m.a. að kanna hvort tilefni er til að aflétta þessari kvöð í tilteknum sveitarfélögum.

PFS tók saman tiltekin almenn skilyrði sem ætlunin er að hafa til hliðsjónar við mat á því hvort forsendur séu til þess að aflétta alþjónustukvöð Mílu svæðisbundið. Um er að ræða eftirfarandi atriði:

  1. Hið staðbundna net hefur a.m.k. 90% útbreiðslu til lögheimila og vinnustaða með heilsárs atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu.
  2. Tengihlutfall staðfanga (lögheimili/vinnustaðir) við Mílu ehf. innan sveitarfélagsins er komið undir 50%.
  3. Í þeim tilvikum sem Míla ehf. eða eitthvað annað fjarskiptafyrirtæki hyggist ekki útvega tengingu bjóðist öllum fyrirliggjandi og nýjum lögheimilum og vinnustöðum með heilsárs búsetu/atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu að fá tengingu við hið staðbundna ljósleiðaranet gegn einskiptis tengigjaldi sem er ekki hærra en 350.000 kr., enda er kostnaður við lagningu heimtaugarinnar ekki umfram 1.000.000 kr.
  4. Tölur um kostnað í lið 3. uppfærast í upphafi hvers árs í samræmi við verðlagsþróun.

Þann 21. júní s.l. var efnt til opins samráðs við markaðsaðila og annarra hagsmunaaðila um þessi viðmið sem skyldu vera stefnumótandi varðandi þær meginforsendur sem PFS hygðist leggja til grundvallar við ákvörðun um landfræðilega afmörkun á umfangi á alþjónustukvöð Mílu.

Tveir aðilar skiluðu inn umsögn; Míla og Símafélagið.

Eftir að hafa rýnt þau sjónarmið sem fram komu í samráðinu og tekið rökstudda afstöðu til þeirra, telur PFS ekki vera tilefni til að breyta þeim almennu viðmiðum sem stofnunin hyggst leggja til grundvallar varðandi mat á því hvort rétt sé að aflétta alþjónustukvöð Mílu svæðisbundið, sbr. ofangreint.

Tekið skal fram að ekki er um bindandi skilyrði að ræða, heldur viðmið sem höfð verða til hliðsjónar við ákvarðanatöku. Eftir sem áður geta komið upp tilvik um sveitarfélög sem þarf að skoða og meta sérstaklega. Enn fremur verður það ekki skilyrði fyrir afléttingu alþjónustukvaðar í sveitarfélagi að öll lögheimili og vinnustaðir njóti áfram tengingar, enda hefur alþjónusta aldrei verið fortakslaus, þ.e. um hana hafa alltaf gilt viðmið um hámarks kostnað. Í dag er sá kostnaður 650.000 kr. fyrir hverja heimtaug.

Sjá niðurstöðuskjal stofnunarinnar:

Niðurstaða samráðs um viðmið til landfræðilegrar afmörkunar á alþjónustu í fjarskiptum

Þess skal getið að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, að því er varðar alþjónustu á sviði fjarskipta.

 

Til baka