Staðsetning bréfakassa í fjölbýlum
11. október 2017Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú 8 hliðstæðar ákvarðanir sem varða staðsetningu bréfakassa í fjölbýlum.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 er póstrekendum heimilt að endursenda póstsendingar ef bréfrifur og bréfakassar viðtakanda eru ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.
Það ákvæði byggingarreglugerðar sem um er að ræða er nú í grein 6.13.1, í byggingarreglugerð nr. 112/2012 en var áður í grein 80.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. reglugerð nr. 133/2002.
Með tilkynningu Íslandspósts, dags. 5. janúar 2017, fór fyrirtækið fram á að hússtjórnir í nokkrum fjölbýlishúsum í Vallarhverfinu í Hafnarfirði, settu upp sameiginlega bréfakassa ella yrði póstútburði hætt í viðkomandi fjölbýlishús.
Í kjölfarið bárust PFS átta kvartanir frá hússtjórnum fjölbýlishúsa í Vallarhverfinu vegna þessara fyrirætlana Íslandspósts.
Ágreiningurinn snýst einkum um það hvort til staðar sé sameiginlegur inngangur í skilningi byggingarreglugerðar og þar með skylda til að setja upp bréfakassasamstæðu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.
Hliðstætt mál kom til kasta PFS árið 2010. Í þeirri ákvörðun stofnunarinnar, nr. 16/2010, byggði niðurstaða hennar á umsögn byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem kvað á um að íbúum væri skylt að koma fyrir bréfakassasamstæðu á jarðhæð í hverju stigahúsi, með tilvísun í gr. 80.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 með síðari breytingum.
Í umsögn byggingarfulltrúans í Hafnarfirði í þessu máli nú er það hins vegar niðurstaðan að ekkert sameiginlegt anddyri sé í umræddum húsum og af þeim sökum ekki hægt að gera kröfu um að í viðkomandi fjölbýlishúsum sé komið fyrir bréfakassasamstæðu skv. ákvæðum byggingarreglugerðar. Jafnframt tiltekur byggingarfulltrúi að núverandi staðsetning á bréfalúgum, sem er á útidyrahurðum hverrar íbúðar fyrir sig, sé í fullu samræmi við ákvæði byggingareglugerðar.
Eins og rakið er hér að ofan komst byggingarfulltrúi Reykjavíkur að annarri niðurstöðu um túlkun á grein 80.2., en þar var niðurstaðan að íbúum væri skylt að koma fyrir bréfakassasamstæðu á jarðhæð fjölbýlishússins.
PFS lítur svo á að byggingarfulltrúinn í Reykjavík sem og í Hafnarfirði séu tvö hliðsett og sjálfstæð stjórnvöld og valdsvið þeirra séu landfræðilega afmörkuð eftir sveitarfélagamörkum. Í ákvörðun sinni tekur stofnunin því enga afstöðu til þess hvort um sé að ræða eitthvert misræmi í túlkun þessara stjórnvalda á ákvæðum byggingareglugerðar og hvaða mögulegar afleiðingar það kunni að hafa. Hins vegar er ljóst að PFS er í þessu máli skylt að leggja til grundvallar niðurstöðu byggingarfulltrúans í Hafnarfirði um túlkun á ákvæði gr. 80.2 í byggingareglugerð nr. 441/1998, sbr. reglugerð nr. 133/2002, sem byggingarfulltrúi telur að miða beri við.
Með hliðsjón af ofangreindu áliti byggingarfulltrúans í Hafnarfirði telur PFS því að ÍSP sé ekki heimilt að krefjast þess að íbúar komi fyrir bréfakassa á jarðhæð þeirra fjölbýlishúsa sem höfðu kvartað til PFS eins og krafist var af hálfu ÍSP með bréfi, dags. 5. janúar 2017.
Í ákvörðuninni vekur stofnunin einnig athygli aðila máls á hugsanlegum möguleika á að bera álit byggingarfulltrúans í Hafnarfirði með einhverjum hætti undir úrskurðarnefnd skipulags og byggingarmála (Mannvirkjastofnun), sbr. umfjöllum í fyrrnefndri ákvörðun PFS nr. 16/2010 og úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2010.
Sjá umræddar ákvarðanir hér fyrir neðan:
Nr. 20/2017 - Staðsetning bréfakassa að Svöluási 1b, 221 Hafnarfirði
Nr. 19/2017 - Staðsetning bréfakassa að Svöluási 1a, 221 Hafnarfirði
Nr. 18/2017 - Staðsetning bréfakassa að Þrastarási 16, 221 Hafnarfirði
Nr. 17/2017 - Staðsetning bréfakassa að Þrastarási 75, 221 Hafnarfirð
Nr. 16/2017 - Staðsetning bréfakassa að Burknavöllum 17c, 221 Hafnarfirði
Nr. 15/2017 - Staðsetning bréfakassa að Berjavöllum 2, 221 Hafnarfirði
Nr. 14/2017 - Staðsetning bréfakassa að Daggarvöllum 6a og 6b, 221 Hafnarfirði
Nr. 13/2017 - Staðsetning bréfakassa að Engjavöllum 5a og 5b, 221 Hafnarfirði