Hoppa yfir valmynd

Þráðlausir WiFi netbeinar frá fjarskiptafélögum hérlendis flestir uppfærðir. Fólk skoði endabúnað og einkanetbeina.

Tungumál EN
Heim
20. október 2017

Svo virðist sem mesta hættan vegna KRACK veikleikans sem brýtur WPA2 dulkóðun á þráðlausum WiFi netum sé liðin hjá. Fjarskiptafélögin á Íslandi hafa sett inn öryggisuppfærslur á nánast alla WiFi netbeina sína. (e. router).  Viðskiptavinum þeirra ætti því í flestum tilvikum að vera óhætt að nota þráðlaus net sín heima og á vinnustöðum. Þeir notendur sem eru með eigin WiFi netbeina ættu að kynna sér hvort komnar eru öryggisuppfærslur fyrir þá.

Hafa ber í huga að þó utanaðkomandi aðili þurfi að vera innan WiFi sviðs viðkomandi tækis til að geta notfært sér öryggisveikleika í WPA2 dulkóðun er það svo að þráðlaus net ná oft talsvert út fyrir veggi heimila, fyrirtækja og stofnana.

Ætíð gildir að fara skal varlega þegar tengst er við WiFi net á opinberum stöðum eins og á flugvöllum eða veitingastöðum. Þeir sem hafa VPN tengimöguleika ættu að nota þá. Ef fólk þarf að skrá sig inn á vefsíður er alltaf góð regla að athuga hvort þær hafi öryggisvottaða vefslóð, þ.e. að það birtist https fremst í vefslóðinni.

Huga þarf einnig að endabúnaði notenda, þ.e. tölvum og símum. Búið er að uppfæra Windows stýrikerfi og sú uppfærsla ætti að vera komin inn í hjá þeim sem eru með sjálfvirkar uppfærslur. Aðrir ættu að leggja áherslu á að samþykkja þær uppfærslur sem Windows býður og gera það með reglulegum hætti.

Uppfærslur fyrir Android og iPhone stýrikerfi eru á leiðinni og Linux notendur ættu að vera vakandi. Notendur þessara kerfa ættu að uppfæra tæki sín um leið og öryggisuppfærslur berast.

Hér fyrir neðan eru tvær slóðir þar sem hægt er að nálgast nánari upplýsingar annars vegar um um KRACK veikleikann og hins vegar listi yfir hugbúnaðarframleiðendur og stöðu mála varðandi vörur þeirra ef hún er þekkt.

Póst- og fjarskiptastofnun og netöryggissveitin CERT-IS hafa unnið náið með fjarskiptafyrirtækjunum varðandi uppfærslur netbeina, en notendur sem eru í vafa eru hvattir til að hafa samband við sína internetveitu til að fá upplýsingar um stöðu mála.

Upplýsingar og listi yfir framleiðendur og staða á tækjum þeirra nú ef hún er þekkt

Grein úr breska veftímaritinu The Register um KRACK veikleikann

 

 

 

 

Til baka