Hoppa yfir valmynd

Niðurstöður úttektar á vinnslu símaskrárupplýsinga

Túngumál EN
Heim

Niðurstöður úttektar á vinnslu símaskrárupplýsinga

3. nóvember 2017

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú skýrslu um niðurstöðu úttektar á verkferlum um skráningu og miðlun símaskrárupplýsinga í gagnagrunn Hins íslenska númerafélags ehf. (HÍN). Beindist úttektin annars vegar að þeim fjarskiptafyrirtækjum sem úthluta símanúmerum og eru eigendur í HÍN og hins vegar að upplýsingaveitum símskrárupplýsinga.

Úttektin var gerð af ráðgjafafyrirtækinu MMR og fór hún fram í áföngum frá síðastliðnu vori og fram á sumar. MMR skilaði skýrslu sinni um úttektina í júlí s.l. og síðan þá hefur verið unnið að því að greina þær upplýsingarnar sem koma fram í skýrslunni, m.a. með því að sannreyna þær miðað við atburðarskráningar í HÍN.

Um er að ræða sams konar úttekt og framkvæmd var á síðasta ári og birt í september það ár. Niðurstaða þeirrar úttektar var að það væru umtalsverðar brotalamir á því að upplýsingar skiluðu sér í gagnagrunn HÍN, hvort sem var um að ræða stofnun símanúmers eða óskir um breytingar á upplýsingum, s.s. um breytt heimilisfang, skráningu bannmerkis o.s.fv., en um er að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fjarskiptafyrirtæki bera ábyrgð á samkvæmt 45. gr. fjarskiptalaga.

Í kjölfar úttektarinnar á síðasta ári lagði PFS fyrir fjarskiptafyrirtækin að gera tilteknar úrbætur á upplýsingavinnslunni. Var tiltekið að þegar fyrirtækjunum hefði gefist hæfilegt svigrúm til að innleiða úrbæturnar yrði úttektin endurtekin, sem nú hefur verið gert.

Í samandregnu máli má segja að helsta niðurstaða skýrslunnar sé að vísbendingar séu enn um að annmarkar séu á því að upplýsingar skili sér í gagnagrunn HÍN og/eða í birtingu á vefsíðum upplýsingaveitna. Um er að ræða talsvert mikil frávik á heppnuðum aðgerðum, en sum frávik kunna að skýrast af starfsháttum þeirra sem veita upplýsingar um símanúmer. Þó einhverjar skýringar, sem ekki er að rekja til fjarskiptafyrirtækjanna, kunni að vera á því að símaskrárupplýsingar hafi ekki skilað sér í gagnagrunn upplýsingaveitnanna, bendir þó fjöldi frávikanna til þess að brotalamir geti verið á verkferlum fjarskiptafyrirtækjanna um vinnslu símaskrárupplýsinga. Á hinn bóginn er ljóst úttektin miðast við ákveðnar forsendur og það er ekki hægt að draga ályktun um það hvort verkferlum sé ábótavant nema eftir frekari skoðun.

PFS hyggst því framkvæma nánari athugun á verkferlum fjarskiptafyrirtækja um vinnslu símaskrárupplýsinga og unnið verður með þeim að því að bæta gæði vinnslunnar eftir því sem kostur er.

Úttekt á réttleika símaskrárupplýsinga - skýrsla MMR - júlí 2017

Viðbótarupplýsingar - október 2017

Sjá einnig:

Verklagsreglur PFS um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum.

 

 

 

Til baka