Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Íslandspóstur hyggst fækka dreifingardögum bréfapósts í þéttbýli - PFS kallar eftir umsögnum

7. nóvember 2017

Íslandpóstur ohf. tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), með bréfi dags. 28. september 2017, að fyrirtækið hygðist breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur hingað til á póstdreifingu í þéttbýli.

Áætlar fyrirtækið að fækka dreifingardögum bréfapósts þannig að hvert heimili í þéttbýli fái til sín bréfapóst annan hvern dag, með þjónustustiginu D+3. Það þýðir að póstinn skuli bera út innan þriggja daga frá því hann er póstlagður.

Í tilkynningu Íslandspósts er vísað til nýlegrar breytingar á reglugerð um alþjónustu nr. 595/2017, þar sem kveðið er á um að heimilt sé að fækka dreifingardögum niður í allt að tvo virka daga í viku ef kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður hindri hagkvæma dreifingu. Með kringumstæðum í skilningi reglugerðarinnar er m.a. átt við:

  1. Eftirspurn almennings og fyrirtækja á þjónustu innan einkaréttar hafi minnkað verulega og er ekki í samræmi við framboð þjónustunnar,
  2. Hætta er á, við óbreytt þjónustustig, að þjónustan verði almenningi ekki viðráðanleg, í skilningi 4. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu.

Helstu rök Íslandspósts

Í tilkynningu Íslandspósts er m.a. vísað til þess að rekstrarumhverfi fyrirtækisins hafi breyst mikið á síðustu árum. Íbúðum hafi fjölgað og þar með kostnaður af dreifingu. Á sama tíma hafi minnkandi eftirspurn valdið miklum samdrætti í magni almenns bréfapósts. Þessi þróun hafi valdið sífellt hærri einingarkostnaði. Einnig er vísað í skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins um mat á starfsskilyrðum Íslandspósts frá árinu 2014, kannanir sem Maskína hafi gert fyrir innanríkisráðuneytið og Íslandspóst á árunum 2012, 2015 og 2017, ásamt því að fyrirtækið gerir grein fyrir þeim hagræðingaraðgerðum sem gripið hefur verið til á undanförnum árum.

Í tilkynningu sinni lýsir Íslandspóstur breytingunum með eftirfarandi hætti:

„Með vísan til ákvæða 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 595/2017 hefur af hálfu Íslandspósts verið tekin ákvörðun um að fækka dreifingardögum þannig að hvert heimili í þéttbýli fái til sín bréfapóst annan hvern dag með þjónustustig D+3. Útfærsla dreifikerfisins verður sú sama og hefur verið í nokkur ár með dreifingu B pósts (D+3) með XY fyrirkomulagi. Þannig er póstur flokkaður og unninn daginn eftir póstlagningu, næsta dag þar á eftir er dreift til helmings heimila og á þriðja degi eftir póstlagningu er dreift í hinn helming heimila. Í dreifikerfi Íslandspósts í dag er stærstum hluta bréfa dreift sem B pósti í þéttbýli og að öllu leyti sem B pósti í dreifbýli. A póstur (D+1) er 31% af póstmagni innan einkaréttar ef heildarbréfamagn er tekið er hlutfallið [...] þar sem ekki er boðið upp á B póst í þyngri bréfasendingum.

Eftir þessa breytingu mun Íslandspóstur einungis bjóða upp á eitt þjónustustig innan alþjónustu í almennum bréfapósti[...].

Íslandspóstur mun áfram bjóða upp á D+1 þjónustu í formi rekjanlegra bréfa og mun væntanlega taka upp sérstaka vöru, svokallað hraðbréf, með D+1 þjónustu ef eftirspurn er eftir slíkri vöru...“

Málsmeðferð PFS

Í fyrrnefndri reglugerð nr. 595/2017, sem breytir reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu nr. 364/2003, er ekki gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun samþykki fyrirfram ef alþjónustuveitandi hyggst nýta sér heimild reglugerðarinnar um breytingu á því þjónustuframboði sem fellur undir alþjónustu. Aðeins er tiltekið að aðgerðin sé tilkynningarskyld. Í tilkynningu sinni til PFS segir Íslandspóstur að breytingarnar muni taka gildi frá og með 1. febrúar 2018.

Stofnunin telur engu að síður nauðsynlegt að kalla eftir mögulegum sjónarmiðum hagsmunaaðila vegna þeirra breytinga sem Íslandspóstur hefur nú boðað. Um grundvallarbreytingar er að ræða frá því sem nú er og geta þær haft áhrif á það hvernig notendur þjónustunnar, t.d. fyrirtæki á markaði, kjósa að haga starfsemi sinni. Að þessu samráði loknu mun stofnunin, m.a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem kunna að berast frá hagsmunaaðilum, taka afstöðu til þess, hvort ástæða sé til að fara í einhverja sérstaka greiningu á forsendum þeirra breytinga sem Íslandspóstur hefur nú boðað.

Þess er óskað að athugasemdir og/eða ábendingar vegna þessara breytinga berist PFS á netfangið fridrik(hjá)pfs.is fyrir 24. nóvember nk. 

Þá er einnig rétt að benda á að fyrirtæki á markaði hafa sjálfstæðan rétt til að kvarta til stofnunarinnar vegna þessara breytinga, sbr. 9. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003.

Rétt er að vekja athygli á því að PFS hefur í dag engar upplýsingar um hvernig verðlagningu verður háttað og/eða hvort breytingar verði gerðar á núverandi afsláttarfyrirkomulagi vegna magnpósts í hinu boðaða fyrirkomulagi Íslandspósts. Stofnunin hefur vakið athygli Íslandspósts á því, að þó að tilkynningafrestir séu tiltölulega stuttir samkvæmt 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002,  kunni að vera full ástæða fyrir fyrirtækið að kynna með eins miklum fyrirvara og frekast er unnt allar þær breytingar sem snúa að verðlagningu, sem og breytingar á afsláttarfyrirkomulagi ef þær munu hafa áhrif á núverandi skilmála.

Sjá tilkynningu Íslandspósts í heild:

Tilkynning um fækkun dreifingardaga bréfapósts (Athugið að trúnaðarupplýsingar hafa verið fjarlægðar úr því skjali sem hér er birt)

 

 

Til baka