Hoppa yfir valmynd

Aðgangur að húskössum og frágangur fjarskiptatenginga í þeim

Túngumál EN
Heim

Aðgangur að húskössum og frágangur fjarskiptatenginga í þeim

22. nóvember 2017

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir í dag tvær ákvarðanir sem varða ágreining milli Mílu og Gagnaveitu Reykjavíkur um aðgang að húskössum og frágang fjarskiptatenginga í þeim. Húskassar eru skápar sem hýsa inntak fjarskiptalagna (heimtauga) þar sem þær tengjast við innanhússfjarskiptalagnir. Samkvæmt fjarskiptalögum eru húskassar á ábyrgð húseigenda, en fjarskiptafyrirtæki eiga rétt til aðgangs að þeim til að framkvæma fjarskiptatengingar.

Ákvörðun nr. 25/2017 - Aðgangur Mílu að fjarskiptainntaki 

Ákvörðunin varðar ágreining aðila um hvort að Mílu væri heimilt að opna húskassa sem Gagnaveita Reykjavíkur hefði komið upp án þess að hafa samband við félagið um það og óska eftir tengingu gegn gjaldi. Það er niðurstaða PFS að skylda Mílu til að hafa samband við Gagnaveitu Reykjavíkur um að framkvæma tengingu gegn gjaldi eigi einungis við ef Míla hyggst nota sér aðstöðu sem Gagnaveita Reykjavíkur hefur komið upp. Hins vegar eigi sú skylda ekki við þegar Míla setur upp annan húskassa og þarf einungis að nálgast lausan þráð innanhússlagnar í þeim húskassa sem fyrir er. Varðandi túlkun á markmiði reglna PFS nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir, er það jafnframt niðurstaða PFS, að sjónarmið um öryggi, þ.e. að húskassar skuli vera læstir, séu ekki æðri markmiði um samkeppni og jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja að húskössum. Auk þess sem eignarhald á húskössum breyti engu um þær reglur sem gilda um aðgang að þeim, en Gagnaveita Reykjavíkur hefur haldið því fram að húskassar sem settir eru upp á vegum félagsins séu í eigu þess.

Ákvörðun PFS nr. 25/2017 - Aðgangur Mílu að fjarskiptainntaki

Ákvörðun PFS nr. 26/2017 - Frágangur tenginga í fjarskiptainntaki

Ákvörðun PFS nr. 26/2017 varðar ágreining aðila um það í hvaða tilvikum er heimilt að framkvæma svokallaða splæsitengingu, þ.e. að bræða saman ljósleiðaraheimtaug við innanhússfjarskiptalögn. Það er niðurstaða stofnunarinnar að slík heimild sé bundin við eldri fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði (byggð fyrir gildistöku reglnanna í desember 2015) sem og séreignir. Í nýbyggingum fjölbýlishúsa og atvinnuhúsnæðis sé á hinn bóginn skylt að tengja ljósleiðaraheimtaug við svokallaða tengilista. Þá er kröfu Mílu, um að fyrirmælum verði beint til Gagnaveitu Reykjavíkur um að framkvæma úrbætur á þeim tengingum sem ekki eru í samræmi við reglur, vísað frá.

Ákvörðun PFS nr. 26/2017 - Frágangur tenginga í fjarskiptainntaki

 

 

 

Til baka