Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Aðalritari Alþjóðafjarskiptasambandsins afhendir íslenskum stjórnvöldum viðurkenningu fyrir árangur í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017

11. apríl 2018

Ísland varð í fyrsta sæti á heimsvísu árið 2017 á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) yfir árangur þjóða heimsins í útbreiðslu og notkun fjarskipta og upplýsingatækni eins og við sögðum frá hér á vefnum í nóvember sl.

Um er að ræða einkunnalista Alþjóðafjarskiptasambandsins, svokallaðan IDI lista (ICT Development Index), sem birtur er árlega í skýrslu sambandsins um stöðu og þróun upplýsingasamfélagsins í heiminum.

Alþjóðafjarskiptastambandið er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna og er Póst- og fjarskiptastofnun tengiliður Íslands á vettvangi þess ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Aðalritari sambandsins, Houlin Zhao, gerði sér sérstaka ferð til Íslands af þessu tilefni og afhenti í dag Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, viðurkenningu sambandsins fyrir þennan góða árangur Íslands.  Afhendingin fór fram á morgunverðarfundi sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið boðaði til á Grand Hótel þar sem þeir Houlin Zhao, Sigurður Ingi Jóhannsson og Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) héldu erindi.

Fundurinn hófst á því að Houlin Zhao ræddi framíðarsýn í fjarskiptum og afhenti síðan ráðherra, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, viðurkenningu Alþjóðafjarskiptasambandsins. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra hélt því næst erindi þar sem hann upplýsti m.a. um það að af hálfu núverandi sjórnvalda stæði til að gera sameiginlega framtíðaráætlun um fjarskipti, samgöngur og byggðamál.

Hrafnkell V. Gíslason hélt að lokum erindi undir heitinu Helstu áskoranir í fjarskiptum.  Þar fjallaði Hrafnkell m.a. um þær áskoranir sem við blasa í tækni-, markaðs- og samfélagsþróun á sviði fjarskipta og upplýsingatækni á næstu árum eftir þvi sem hinni svonefndu fjórðu iðnbyltingu vindur fram.  Erindi Hrafnkels má lesa í heild sinni hér.

Að morgunverðarfundinum loknum heimsótti Houlin Zhao Póst- og fjarskiptastofnun og kynnti sér starfsemi stofnunarinnar. Myndin með fréttinni er tekin af þeim Houlin Zhao og Hrafnkeli V. Gíslasyni forstjóra við það tækifæri.

Hér fyrir neðan má sjá viðurkenningarskjalið og verðlaunagripinn sem því fylgdi.

Ísland í 1. sæti í fjarskiptum 2017 - viðurkenning og verðlaunagripur ITU

 

 

 

 

 

Til baka