Hoppa yfir valmynd

Breyting á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

Túngumál EN
Heim

Breyting á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

3. maí 2018

PFS vekur athygli á því að í gær voru í Stjórnartíðindum birtar reglur nr. 421/2018 til breytinga á reglum PFS nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir. Breytingarnar voru unnar í samráði við markaðs- og hagsmunaðila á fjarskiptamarkaði sem fór fram í tveimur hlutum, annars vegar þann 16. janúar 2018 og hins vegar þann 1. mars 2018.

Efni reglubreytinganna varðar frágang á tengingum heimtauga við innanhússfjarskiptalagnir í fjarskiptainntaki. Meginbreytingin felur í sér að ávallt skuli setja upp svo kallaðan tengilista í fjarskiptainntaki óháð tegund eða aldri húsbygginga þegar verið er að tengja lögheimili og vinnustaði við almenna fjarskiptanetið. Heimilt er að notast við svo kallaða bræðisuðuaðferð, en þá skal, ef um er að ræða fjölbýlishús eða einingaskipt atvinnuhúsnæði, leggja aukaþráð frá fjarskiptainntaki að hverri íbúð eða einingu. Lausa aukaþræðinum skal komið fyrir í tengilistanum.

Reglurnar taka gildi þann 1. júlí 2018.

Til baka