Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða í kvörtunarmáli gegn Mílu varðandi jarðvegsframkvæmdir

Túngumál EN
Heim

Niðurstaða í kvörtunarmáli gegn Mílu varðandi jarðvegsframkvæmdir

4. maí 2018

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 5/2018 í deilumáli milli Mílu og Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) og varðar framkvæmd Mílu á kvöðum sem PFS lagði á félagið með ákvörðun nr. 21/2014 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir aðgang að heimtaugum (M4) og bitastraumi (M5). Í þeirri ákvörðun var Míla skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk á tilgreindum mörkuðum og lagðar á kvaðir um aðgang og jafnræði. Hluti aðgangskvaðar fól m.a. í sér að Míla skyldi birta lista um fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir með sex mánaða fyrirvara svo aðrir aðilar gætu tekið þátt í og nýtt sér framkvæmdirnar til að byggja upp sína eigin innviði.

Málið byggir á kvörtun GR um að Míla hafi farið í jarðvegs og lagnaframkvæmdir í Setbergi í Hafnarfirði sumarið 2017 án aðkomu GR, þrátt fyrir ósk félagsins þar um. Míla birti lista um fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir í tilgreindum götum í Setbergi í Hafnarfirði á heimasíðu sinni þann 11. janúar 2017. Í umræddum auglýsingum voru birt götukort þar sem litaðir höfðu verið inn skurðir sem félagið hugðist grafa í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi annars vegar og í Úthlíð, Steinahlíð, Brekkuhlíð og Steinabergi hins vegar. Óskaði GR eftir þátttöku í umræddum framkvæmdum og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um fyrirliggjandi innviði Mílu (heimtaugarör) á svæðinu sem að GR gæti fengið aðgang að.

Við rannsókn PFS á málinu kom í ljós að umræddar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir Mílu fólu einnig í sér umfangsmikinn holugröft, þar sem stofnrör félagsins voru samtengd heimtaugarörum, en ekki einungis gerð þeirra skurða sem að auglýstir höfðu verið. Að mati PFS telst skortur á upplýsingum um holugröft brjóta í bága við umrædda aðgangskvöð sem hvílir á félaginu enda gefa þær upplýsingar sem birtar voru í auglýsingum félagsins ekki rétta mynd af þeim framkvæmdum sem Míla hugðist fara í að sex mánuðum liðnum. Þá kom eins í ljós við rannsókn málsins Míla hafði farið í jarðvegs- og lagnaframkvæmdir í Lindabergi í Hafnarfirði án þess að hafa auglýst þá framkvæmd.

Rannsókn málsins sýndi einnig að Míla hafði hvorki veitt GR frekari upplýsingar um raunverulegt umfang framkvæmda í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi né upplýsingar um mögulegt aðgengi félagsins í heimtaugarör Mílu í umræddum götum. Að mati PFS telst það brot gegn aðgangs- og jafnræðiskvöð sem hvílir á Mílu.

Í niðurstöðu sinni kemst PFS því að Míla hafi brotið gegn hvort tveggja kvöð um aðgang og kvöð um jafnræði, sbr. kafla 2.1 og 2.3 í áðurnefndri ákvörðun PFS nr. 21/2014 með því að:

  1. auglýsa ekki jarðvegs- og lagnaframkvæmdir félagsins í Lindarbergi í Hafnarfirði,
  2. auglýsa einungis skurði félagsins í fyrirhuguðum jarðvegs- og lagnaframkvæmdum í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi sem og Úthlíð, Steinahlíð, Brekkuhlíð og Steinabergi í Hafnarfirði,
  3. veita GR ekki ítarlegri upplýsingar um fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir félagsins í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi, t.a.m. upplýsingar um holugröft,
  4. veita GR ekki upplýsingar um mögulegan aðgang félagsins að heimtaugarörum Mílu í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi og gæta þar með ekki að jafnræði aðila. 

Í málinu óskaði GR jafnframt eftir því að PFS myndi beina leiðbeinandi tilmælum til bæjar- og sveitarfélaga um rétt og heimildir fjarskiptafélaga til þess að leggja fjarskiptamannvirki í og á landi í eigu og umráðum þeirra, samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti, og um hvaða skyldur aðilar sem stofnunin hefur lagt á kvaðir, samkvæmt 28. og 34. gr. sömu laga, hafa gagnvart öðrum fjarskiptafyrirtækjum. Byggir krafan á því að bæjar- og sveitarfélög hafa sett það skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfa að aðilar á markaði samnýti slíkar framkvæmdir. PFS hafnar kröfu GR á þeim grundvelli að sveitarfélög sinna lögbundnu hlutverki á grundvelli skipulagslaga sem heimilar ákveðna skilyrðingu framkvæmdaleyfa. Slík óvefengd skilyrði sem bæjar- og sveitarfélög setja í framkvæmdaleyfi geta ekki sjálfkrafa talist brot gegn ákvæðnu, enda ekki um beina synjun um aðgang að landi að ræða.

Ákvörðun PFS nr. 5/2018 Jarðvegsframkvæmdir Mílu ehf. í Setbergi í Hafnarfirði (pdf)

Til baka