Hoppa yfir valmynd

Kvörtun Gagnaveitu Reykjavíkur varðandi kostnaðargrunn gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar hafnað

Túngumál EN
Heim

Kvörtun Gagnaveitu Reykjavíkur varðandi kostnaðargrunn gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar hafnað

14. september 2018

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir ákvörðun sína nr. 14/2018 í kvörtunarmáli Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) gegn Símanum hf. sem varðaði hækkun Símans hf. á línugjaldi ljósleiðara í nóvember 2017.  

Samkvæmt kvörtuninni taldi GR að með þeirri aðgerð hafi Símasamstæðan verið að innheimta kostnað af innviðafjárfestingu Mílu ehf. hjá viðskiptavinum Símans hf. Míla hafi þannig komist hjá því að hækka gjaldskrá fyrir heimtaugaleigu. Að mati GR braut umrædd háttsemi gegn þeim kvöðum sem lagðar voru á Mílu ehf. með ákvörðun PFS nr. 21/2014 (útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir aðgang að heimtaugum) og mögulega einnig síðari ákvarðanir stofnunarinnar. 

Niðurstaða PFS var á þá leið meint niðurgreiðsla Símans hf. á gjaldi fyrir heimtaugar Mílu á heildsölumarkaði með línugjaldi á smásölustigi félli ekki undir eftirlitsvald PFS. Var þeim hluta kvörtunarinnar vísað frá. Enn fremur var það niðurstaða PFS að verð fyrir aðgang að koparheimtaugum Mílu ehf. væru byggð á kostnaði félagsins vegna fjárfestingar í koparkerfi sínu sem og við rekstur þess kerfis. Þetta væri í samræmi við þá gjaldskrárkvöð sem hvílir á Mílu ehf., sbr. ákvörðun PFS nr. 21/2014. Því væru fjárfestingar Mílu ehf. í ljósleiðaraheimtaugum ekki inni í þeim fjárfestingagrunni sem byggt er á við útreikninga á verði fyrir aðgang að koparheimtaugum. Þannig var því hafnað að kostnaðargrunnur gjaldskrár Mílu ehf. fyrir koparheimtauga væri rangur. 

Ákvörðun PFS nr. 14/2018

Til baka