Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Úrlausn ágreinings um staðsetningu bréfakassa

5. október 2018

Með úrskurðum nr. 4/2018-5/2018 og 7/2018 - 11/2018 hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfest ákvarðanir PFS nr. 13/2017 -14/2017. og 16/2017 -20/2017.

Í málunum var deilt um það hvort Íslandspósti hafi verið heimilt að krefjast þess að hússtjórnir í tilteknum fjölbýlishúsum í Hafnarfirði settu upp sameiginlega bréfakassa við sameiginlegan inngang eða aðalanddyri fjölbýlishúsanna. Ella yrði póstútburði hætt til viðkomandi íbúa, í samræmi við 4. mgr. 31. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002. Í viðkomandi fjölbýlishúsum eru bréfakassarnir staðsettir við inngang sérhverrar íbúðar.

Við úrlausn málsins hafði PFS leitað til byggingarfulltrúans í Hafnarfirði um túlkun á því ákvæði byggingarreglugerðar sem málið snérist um. Í umsögn byggingarfulltrúans kom fram að ekki væri að finna sameiginlegan inngang né aðalanddyri í viðkomandi fjölbýlishúsum. Af því leiddi að sú tilhögun sem var til staðar í fjölbýlishúsunum, þ.e. að hafa bréfalúgu við hvern inngang, væri í samræmi við byggingarreglugerð.

Í úrskurðum sínum bendir úrskurðarnefndin á að það sé hluti af rannsóknarskyldu PFS að leita til byggingarfulltrúans í Hafnarfirði um það hvort bréfarifur og póstkassar í fjölbýlishúsunum hafi verið í samræmi við byggingarreglugerð, auk þess sé það í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að stjórnvald leiti til sérfróðs stjórnvalds til að veita umsögn sína um atriði sem nái til þess sérfræðisviðs. Með því að leggja niðurstöðu byggingarfulltrúans í Hafnarfirði til grundvallar niðurstöðu sinni hafi ekki falist valdframsal af hálfu PFS, eins haldið var fram í málinu af hálfu Íslandspósts. PFS hafi sjálf tekið ákvörðun um að leggja niðurstöðuna byggingarfulltrúans til grundvallar niðurstöðu sinni og með því fullnægt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taldi nefndin því að PFS hafi verið rétt að leggja niðurstöðu byggingarfulltrúans í Hafnafirði til grundvallar niðurstöðu sinni í þeim ákvörðunum sem nefndin staðfesti, enda hafi niðurstaða byggingarfulltrúans í þeim tilvikum verið í samræmi við texta byggingarreglugerðarinnar.

Íslandspósti hafi því ekki verið heimilt að stöðva póstútburð til íbúa eins og boðað hafi verið. Þannig voru 7 af 8 ákvörðunum PFS þessa efnis staðfestar.

Með úrskurði nr. 6/2018 var ákvörðun PFS nr. 15/2017 hins vegar ógilt, m.a. með þeim rökum að niðurstaða byggingarfulltrúans í Hafnarfirði hafði ekki verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, þar sem húsið var með sameiginlegu anddyri og lyftu, enda húsið 5 hæðir.

Sjá úrskurðina í heild (pdf):
Úrskurður nr. 4/2017
Úrskurður nr. 5/2017
Úrskurður nr. 6/2017
Úrskurður nr. 7/2017
Úrskurður nr. 8/2017
Úrskurður nr. 9/2017
Úrskurður nr. 10/2017
Úrskurður nr. 11/2017

Til baka