Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun hyggst hefja skráningar gervihnattatíðna um næstu áramót

Tungumál EN
Heim
22. nóvember 2018

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur á undanförnum mánuðum kannað fýsileika þess að taka upp afgreiðslu skráninga fyrir gervihnattatíðnir (e. Satellite Filing). Verkefnið er unnið í samstarfi við fyrirtækið Mansat sem sér um slíkar skráningar á eyjunni Mön. 

Með hliðsjón af niðurstöðu könnunar PFS, er stefnt að því að opna fyrir umsóknir um skráningar um áramótin 2018/2019.  

Geimiðnaður er sístækkandi atvinnugrein á heimsvísu. Hann snýst ekki bara um könnun, rannsóknir og framtíðarhugmyndir. Stór hluti geimstarfsemi er þjónusta sem er að fullu komin í notkun og er notuð daglega af mjög mörgum á jörðu niðri. Þar má nefna fjarskiptaþjónustu, sjónvarpsútsendingar, veðurathuganir, landmælingar og leiðsögukerfi. Uppbygging á sviði geimiðnaðar leiðir almennt til aukinnar þekkingar og tæknilegrar getu á öðrum sviðum. Það er mat PFS að skráning gervihnattatíðna geti verið mikilvægt innlegg í því verkefni að efla tengsl Íslands við geimiðnaðinn. 

Með því að opna fyrir skráningar gervihnattatíðna á Íslandi skapast möguleiki á því fá erlend gervihnattafyrirtæki til landsins og enn fremur verður PFS tilbúin til að skrá tíðnir fyrir íslenska aðila þegar að því kemur. Í því sambandi ber að hafa í huga að gervihnattatækni er sífellt að verða ódýrari og aðgengilegri fyrir smærri ríki.  

Afgreiðsluferli skráninga er í stórum dráttum þannig að PFS tekur við skráningarbeiðnum frá gervihnattafyrirtækjum og sendir þær til Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU). Eftir það tekur við ákveðið ferli sem ITU heldur utan um, þar sem leitast er við að samræma tíðninotkun viðkomandi gervihnatta við aðra gervihnetti og önnur fjarskiptakerfi, svo að ekki verði um að ræða skaðlegar truflanir. Ferlið hjá ITU tekur nokkur ár og því lýkur með því að tíðnin er skráð í tíðniskrá sambandsins og notkun tíðninnar hefst. 

Nánari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi skýrslu PFS um verkefnið

Til baka