Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Samráð um gjaldskrár Mílu fyrir koparheimtaugar, bitastraum, lúkningarhluta leigulína og ljóslínur

21. desember 2018

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið yfirferð á kostnaðareiningum Mílu ehf. fyrir heildsöluaðgang að koparheimtaugum (markaður 4/2008), bitastraum (markaður 5/2008) og lúkningarhluta leigulína (markaður 6/2008). Einnig hefur PFS lokið yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu fyrir aðgang að ljóslínum. 

Um er að ræða uppfærslu á kostnaðarlíkönum Mílu með gögnum úr rekstri Mílu frá árinu 2017 í samræmi við ákvarðanir PFS nr. 5/2017, 6/2017, 7/2017 og 24/2017. 

PFS hefur nú yfirfarið þessar uppfærslur Mílu og kallað eftir viðbótargögnum og skýringum eftir því sem við á.  

Helstu breytingarnar í þeim drögum sem nú eru lögð fram eru að mánaðarverð fyrir aðgang að koparheimtaugum mun hækka úr 1.406 í 1.558 kr., mánaðarverð fyrir ADSL/VDSL á aðgangsleið 1 hækkar úr 691 í 725 kr. og úr 1.205 í 1.239 kr. á aðgangsleið 3. Þá hækka mánaðarverð fyrir leigulínur í aðgangsneti að meðaltali um 8% en hækkun á mánaðarverði fyrir ljóslínur í aðgangsneti eru eingöngu um 0,4%. 

Nánari upplýsingar um þessar breytingar má finna í meðfylgjandi drögum. 

Hér með er óskað viðbragða frá fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum við frumdrögum PFS vegna þessara kostnaðargreininga. Athugasemdir skulu berast með pósti eða með tölvupósti til Póst- og fjarskiptastofnunar, stílaðar á Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is) ekki síðar en miðvikudaginn 23. janúar 2019. PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. 

PFS mun síðan senda ákvörðunardrögin til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og 7. gr. rammatilskipunar ESB áður en endanleg ákvörðun er tekin. 

Drög að ákvörðun PFS - Gjaldskrá Mílu fyrir heimtaugar

Drög að ákvörðun PFS - Gjaldskrá Mílu fyrir bitastraum

         Viðauki I - Heildsölugjaldskrá fyrir bitastraumsaðgang

Drög að ákvörðun PFS - Gjaldskrá fyrir lúkningahluta leigulína 

Drög að ákvörðun PFS - Gjaldskrá Mílu fyrir ljóslínur í aðgangsneti

Til baka