Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar

Túngumál EN
Heim

PFS samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar

27. febrúar 2019

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 4/2019. Með ákvörðuninni samþykkir PFS erindi Íslandspósts ohf. um 8-11% hækkun á gjaldskrá félagsins innan einkaréttar. Ákvörðunin byggir á áætlun ÍSP um umtalsverða magnminnkun á pósti innan einkaréttar á árinu 2019 eða allt að 17%. Hækkunin mun hins vegar ekki duga til að vega upp á móti áætluðu tekjutapi fyrirtækisins vegna magnminnkunar innan einkaréttar án frekari hagræðingaraðgerða. 

Með ákvörðun PFS nr. 21/2018 hafnaði stofnunin hliðstæðu erindi um hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar enda komu þar einnig aðrir þættir, en magn, til skoðunar og höfðu þau áhrif að ekki þótti rétt að samþykkja erindið eins og það lá fyrir á þeim tíma. Stofnunin tók hins vegar fram að fljótlega kynnu að skapast þær aðstæður varðandi einkaréttinn, vegna síminnkandi magns, að óhjákvæmilegt yrði að hækka einingarverð ef miða ætti við það kostnaðarmódel og forsendur sem stuðst hefði verið við hingað til. Hvort að best væri að bregðast við þessum aðstæðum með því að hækka gjaldskrá innan einkaréttar í takt við magnminnkun væri ákvörðun sem Íslandspóstur yrði að taka, enda væri PFS hér eftir sem hingað til bundin af ákvæðum 4-6. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 við mat á samþykki fyrir gjaldskrárbreytingum innan einkaréttar. 

Hér má sjá ákvörðunina í heild sinni:
Ákvörðun PFS nr. 4/2019 (pdf)

 

Til baka