Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða úttektar á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur innan OR samstæðunnar

Túngumál EN
Heim

Niðurstaða úttektar á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur innan OR samstæðunnar

22. mars 2019

Með ákvörðun nr. 3/2019 birtir Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) niðurstöðu sína varðandi framkvæmd á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Úttektin tók til tímabilsins 2016-2017 og byggði á bókhalds- og rekstrargögnum þessara ára. Eftirlit með fjárhagslegum aðskilnaði hjá ofangreindri fyrirtækjasamstæðu og öðrum aðilum sem falla undir 36. gr. fjarskiptalaga er viðvarandi verkefni stofnunarinnar.  

Það er meginniðurstaða PFS að fjárhagslegur aðskilnaður OR og GR hafi verið í samræmi við ákvæði 36. gr. fjarskiptalaga, að undanskildum lánveitingum til GR í tengslum við sjóðspott OR samstæðunnar. PFS gerir einnig athugasemd við skilyrði lánastofnana í lánssamningum GR um eignarhald OR yfir GR. PFS telur því þörf á að setja kvaðir á GR um framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar OR og GR um framangreind atriði.  

Að áliti PFS er tilhögun fjármögnunar GR við OR grundvallaratriði varðandi það markmið 36. gr. fjarskiptalaga að tryggja fjárhagslegan aðskilnað milli félaganna. Því ber að gera ríkar kröfur á félögin um tilhögun lánafyrirgreiðslu OR til GR. 

Samkvæmt gildandi kvöðum PFS skulu öll lán OR til GR uppfylla samskonar skilmála og eru í lánssamningum ótengdra lánastofnana og almennt gilda á markaði. PFS telur að skuldir GR við tengd félög vegna framkvæmda á tímabilinu janúar til nóvember 2017 hafi brotið í bága við ákvörðun PFS frá 13. nóvember 2006 og ákvörðun PFS nr. 25/2010 frá 7. september 2010. PFS gerir athugasemd við lánveitingu OR til GR og umfang hennar án þess að sérstakur lánssamningur hafi verið gerður í samræmi við þá skilmála sem almennt giltu á markaði um slíkar lánveitingar. Nauðsynlegt sé að tryggja að slík staða geti ekki hér eftir komið upp á milli GR og samstæðu OR. 

Stofnunin gerir einnig athugasemd við ákvæði í lánssamningum félagsins við lánveitendur um niðurfellingu og uppsögn samnings vegna breytinga á yfirráðum OR yfir GR. Samkvæmt lánssamningum er lánveitendum heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu, segja upp samningi eða gjaldfella hann ef eignarhlutur OR yfir GR fari undir 50%. Að mati PFS samrýmist slíkt ákvæði í lánssamningi ekki 36. gr. laga um fjarskipti, þ.e. að OR skuli halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarra starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Stofnunin telur rétt að umrætt skilyrði um meirihlutaeign OR yfir GR sé ekki í nýjum lánssamningum félagsins. 

Ákvörðun PFS nr. 3/2019 - Niðurstaða úttektar á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur innan OR samstæðunnar 

Til baka