Hoppa yfir valmynd

Sýn (Vodafone) braut ekki gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga.

Túngumál EN
Heim

Sýn (Vodafone) braut ekki gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga.

24. júní 2019

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 16/2019, kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Sýn (Vodafone) hafi ekki brotið gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011. Ákvæðið leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.


Aðilar að málinu voru tveir, þ.e. Síminn sem kvartaði til PFS yfir meintu broti Sýnar og Sýn, sem kvörtunin sneri að. Ágreiningur málsins sneri að því að Síminn hélt því fram að skv. ákvörðun PFS nr. 10/2018 væri það brot á fjölmiðlalögum ef fyrirtæki dreifði myndefni aðeins í gegnum eigið fjarskiptakerfi og að Sýn hefði brotið gegn umræddri 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga þar sem félagið veitti eða hefði á ákveðnum tímapunktum einungis veitt aðgang að ólínulegu myndefni þess í gegnum eigið IPTV fjarskiptakerfi og Sýn hefði ekki haft frumkvæði að því að bjóða efnið til annarra fyrirtækja á markaðnum. Einnig brytu ýmsar markaðsaðgerðir Sýnar að mati Símans í bága við umrædda 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, sem og IP dreifingargjald sem virtist eingöngu lagt á viðskiptavini fjölmiðlaveitu Sýnar sem væri á IPTV kerfi Símans.   


Í ákvörðun PFS nr. 10/2018 kemur fram að frá og með 1. október 2015 hafi ólínuleg myndmiðlun sjónvarpsefnis fjölmiðlaveitu Símans, vegna ákvörðunar Símans þar að lútandi, einungis verið í boði á IPTV kerfi Símans sjálfs, en ekki á IPTV kerfi Sýnar. Né hafi slík miðlun verið tiltæk eftir öðrum flutningsleiðum. Sama gilti um efnisveitu Símans, Sjónvarp Símans Premium. Þessi ákvörðun Símans leiddi til þess að tugþúsundir viðskiptavina, Sýnar, Hringdu, Nova og fleiri félaga, sem nota ljósleiðaranet GR sem undirlag áttu ekki kost á að nálgast umrætt myndefni, nema að færa sig yfir á undirliggjandi fjarskiptanet dótturfélags Símans, Mílu, eða kaupa heimtaugaþjónustu af bæði Mílu og GR. Var þetta talið fela í sér alvarlegan aðstöðumun á milli IPTV sjónvarpsdreifikerfa Símans og Sýnar og talið takmarka valkosti þeirra sem keyptu þjónustu af öðrum þjónustuveitendum. Einnig hefði þetta skapað alvarlegan aðstöðumun á milli Mílu og GR á samkeppnismarkaði yfir undirliggjandi fjarskiptanet. PFS komst að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði framið brot gegn ákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga með því að ólínuleg myndmiðlun sjónvarpsefnis Símans hefði einungis verið í boði á IPTV kerfi Símans, þ.e. hjá tengdu fjarskiptafyrirtæki. 


Sá grundvallarmunur er hins vegar á málunum að ekki er um neinskonar synjun á aðgangi að efni þar sem Síminn hafði aldrei óskað eftir því efni sem kvörtunin beindist að og ekki þriðji aðili heldur. En 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga er ætlað að koma í veg fyrir að efni sem ekki er kostur á að nálgast annars staðar og dreifing þess sé bundin við sama lokaða fjarskiptanetið. Þar sem í máli þessu væri ekki fyrir að fara nokkurs konar sölusynjun yrði því ekki með óyggjandi hætti talið að Sýn hefði brotið gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga og var það mat PFS að Sýn hefði ekki beint viðskiptavinum efnisþjónustu sinnar að tengdu fjarskiptafyrirtæki og því ekki brotið gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga.   

 

Til baka