Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS nr. 5/2018 felld úr gildi að hluta.

Túngumál EN
Heim

Ákvörðun PFS nr. 5/2018 felld úr gildi að hluta.

25. júní 2019

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur úrskurðað í máli nr. 2/2018 þar sem hluti ákvörðunar PFS nr. 5/2018 er felldur úr gildi. 

Míla ehf. kærði ákvörðun PFS nr. 5/2018 þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að félagið hefði brotið gegn aðgangs- og jafnræðiskvöðum sem hvíla á félaginu skv. ákvörðun nr. 21/2014, með þrígreindum hætti, vegna framkvæmda félagsins í Setbergslandi í Hafnarfirði. 

Í fyrsta lagi hafi félagið brotið gegn kvöð um að birta ekki lista yfir fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir, sem er hluti aðgangskvaðar, áður en það fór í framkvæmdir í Lindarbergi í Hafnarfirði, sbr. 1. mgr. ákvörðunarorða PFS. Í öðru lagi hafi Míla ehf. gerst brotlegt við sömu kvöð með því að auglýsa einungis fyrirhugaða skurði félagsins í auglýsingum félagsins, annars vegar í götunum Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi og hins vegar Úthlíð, Steinahlíð, Brekkuhlíð og Stekkjarbergi í Hafnarfirði, sem og fyrir að veita ekki ítarlegri upplýsingar um framkvæmdir í fyrrnefndu götunum, sbr. 2. mgr. ákvörðunarorða PFS. Í þriðja lagi hafi Míla ehf. brotið gegn ákvæðum aðgangs- og jafnræðiskvaðar með því að veita Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) ekki aðgang í heimtaugarör sín í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi og gæta ekki jafnræðis milli tengdra og ótengdra aðila, sbr. 3. mgr. ákvörðunarorða PFS.

Úrskurðarnefnd staðfesti 1. mgr. ákvörðunarorða stofnunarinnar en felldi 2. og 3. mgr. úr gildi.

Hvað varðar 1. málsl. 2. mgr. taldi nefndin að orðalag kvaðarinnar um að birta lista yfir fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir, skv. ávörðun PFS nr. 21/2014, yrði ekki túlkað með meira íþyngjandi hætti en orðalag hennar kveður á um. Í umræddri ákvörðun komi ekki fram hversu nákvæmar upplýsingarnar eigi að vera í tilkynningum Mílu. Telur úrskurðarnefndin því fullnægjandi að Míla ehf. auglýsi að tilteknar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir séu fyrirhugaðar eftir tiltekin tíma og á tilteknum svæðum. 

Hvað varðar 2. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. ákvörðunarorða PFS þá taldi úrskurðarnefndin að svo mikill óskýrleiki hafi verið í samskiptum beggja aðila, þ.e. Mílu og GR, vegna umræddra framkvæmda að ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Míla hafi í reynd neitað og/eða að yfirlögðu ráði ekki veitt ítarlegri upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi.

Til baka