Hoppa yfir valmynd

Skilyrði um útfærslu á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur frá Orkuveitu Reykjavíkur staðfest

Túngumál EN
Heim

Skilyrði um útfærslu á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur frá Orkuveitu Reykjavíkur staðfest

21. október 2019

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 3/2019 sem varðaði úttekt á fjárhagslegum aðskilnaði Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR), sbr. úrskurð í kærumáli nr. 2/2019. Úttektin tók til tímabilsins 2016-2017 og byggði á bókhalds- og rekstrargögnum þessara ára. Eftirlit með fjárhagslegum aðskilnaði hjá ofangreindri fyrirtækjasamstæðu og öðrum aðilum sem falla undir 36. gr. fjarskiptalaga er viðvarandi verkefni stofnunarinnar.

Í ákvörðun PFS var það meginniðurstaða stofnunarinnar að fjárhagslegur aðskilnaður OR og GR hafi verið í samræmi við ákvæði 36. gr. fjarskiptalaga, að undanskildum lánveitingum til GR í tengslum við sjóðspott OR samstæðunnar. PFS gerði einnig athugasemd við skilyrði lánastofnana í lánssamningum GR um eignarhald OR yfir GR. PFS taldi því þörf á að setja kvaðir á GR um framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar OR og GR um þessi atriði.

GR vildi ekki una þeirri kvöð sem lögð var á félagið um að fjarlægja skilmála um eignarhald OR yfir GR í lánasamningum félagsins við töku nýrra lána. Taldi félagið að með því væri farið umfram þá heimild sem fælist í 36. gr. fjarskiptalaga fyrir PFS að setja skilyrði um útfærslu á fjárhagslegum aðskilnaði. Taldi félagið m.a. að ákvæðið tæki eingöngu til lögskipta milli móðurfélags og dótturfélags, en ætti ekki við um sjálfstæðar ákvarðanir GR sem teknar væru án aðkomu móðurfélagsins OR. Auk þessa taldi GR að um væri að ræða venjubundinn skilmála af hálfu lánastofnana sem almennt tíðkaðist um lánasamninga af þessu tagi.

Niðurstaða úrskurðarnefndar var á þá leið að ákvæði 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga væri skýrt og að ekki væri tilefni til að túlka efnisinntak þess með jafn þröngum hætti og GR lagði upp með. Í úrskurðinum segir m.a. eftirfarandi:

„Það er mat úrskurðarnefndarinnar að túlka skuli ákvæði 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga eftir orðanna hljóðan. Orðalag ákvæðisins er skýrt og nokkuð afdráttarlaust,en þar segir að halda skuli „fjarskiptastarfsemi fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða“. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að sá lánaskilmáli sem deilt er um í máli þessu feli í sér að kærandi og OR séu fjárhagslega tengd saman. Er þannig ljóst að það hefði afar afdrifarík áhrif á fjárhag kæranda færi eignarhlutur OR undir 50%, enda hefur lánveitandi í því tilviki heimild til að gjaldfella lán. Úrskurðarnefndin telur að þessi fjárhagslegu tengsl sem myndast milli fyrirtækjanna tveggja með umræddum lánaskilmála séu þannig að þau fái ekki samrýmst kröfunni um að fjárhagslegur aðskilnaður þeirra sé eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærðu ákvörðunarorð séu til samræmis við efni 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga.“ 

Í ljósi niðurstöðu um efnislegt inntak 36. gr. fjarskiptalaga taldi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála að það hefði ekki þýðingu í málinu þótt slíkur lánaskilmáli kynni vera algengur í tilteknum lánasamningum.       

Úrskurðurinn í heild sinni.

 

Til baka