Hoppa yfir valmynd

Afleiðingar óveðursins í síðustu viku á fjarskiptakerfi - Stöðufundur PFS, Neyðarlínunnar, RÚV og fjarskiptafélaganna

Túngumál EN
Heim

Afleiðingar óveðursins í síðustu viku á fjarskiptakerfi - Stöðufundur PFS, Neyðarlínunnar, RÚV og fjarskiptafélaganna

18. desember 2019

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), RÚV, Neyðarlínan og fjarskiptafélögin vinna öll að eigin greiningum á útfalli fjarskipta í undangengnu óviðri og afleiðingum þess. Veðrið olli fordæmalausu, víðtæku rafmagnsleysi sem varði mun lengur en varaafl fjarskiptakerfanna gerir almennt ráð fyrir. 

Þann 17. desember komu þessir aðilar saman á fundi þar sem staðan var rædd og farið yfir afleiðingar óveðursins. Þar kom m.a. fram að fjarskiptavirki hefðu staðið af sér óveðrið. Það útfall sem varð, hafi fyrst og fremst verið af völdum rafmagnsleysis. Á hluta svæðisins þar sem víðtæks rafmagnsleysis gætti var fjarskiptaþjónusta þó aðgengileg að einhverju marki, bæði í fastaneti og farneti. 

Einnig er ljóst að góð samvinna milli fjarskiptafyrirtækjanna á meðan á þessum erfiðleikum stóð hafi átt þátt í að draga úr áhrifum truflana á fjarskiptum, eins og hægt var í ljósi aðstæðna. Þá var samvinna við viðbragðsaðila og björgunarsveitir ómetanleg. Meðal þeirra aðgerða sem gripið var til var að slökkva á 4G þjónustu meðan sendar gengu á varaafli til að lengja líftíma þess og opnað var fyrir reiki milli félaganna á þeim stöðum þar sem það kom að gagni. Þá sendu fjarskiptafélögin mannskap með búnað til að auka varaafl á mikilvægustu fjarskiptastöðunum. 

Í framhaldi af fundinum mun PFS óska eftir skýrslum frá fjarskiptafélögunum um umfang, orsakir og afleiðingar þessa rofs á fjarskiptaþjónustu.

Næstu skref sem fyrir liggja eru atburðagreining og tillögur um úrbætur, greining á lykilinnviðum og forgangsröðun aðgerða.

Til baka