Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang og miðlægan aðgang með fasttengingu

Tungumál EN
Heim
30. apríl 2020

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang með fasttengingu og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur. Um er að ræða markaði 3a og 3b í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2016. Greiningunni og fyrirhugaðri ákvörðun um kvaðir er ætlað að leysa af hólmi greiningu og ákvörðun fyrir markaði 4 og 5 skv. tilmælum ESA frá 2008, en sú ákvörðun var birt í ágúst 2014. 

Óskar stofnunin nú viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér eru lögð fram, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.
Samráðsskjölin eru aðgengileg á PDF formi neðst í þessari frétt.


Markaður 3a, heildsölumarkaður fyrir staðaraðgang með fasttengingu
Samkvæmt breyttri skilgreiningu á þessum markaði samanstendur hann af aðgangsnetum (heimtaugum) á fastlínu, bæði kopar og ljósleiðara, og tengdri aðstöðu, ásamt sýndarlausnum sem uppfylla sömu þarfir og heimtaugaleiga (VULA). Með ákvörðun 21/2014 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á hliðstæðum þjónustumarkaði (M4/2008) og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið.

PFS framkvæmdi ítarlega landfræðilega greiningu á umræddum markaði eftir sveitarfélögum, en komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir nokkuð mismunandi samkeppnisaðstæður milli sveitarfélaga væru þær ekki nægjanlega miklar til að réttlæta aðgreinda landfræðilega markaði. PFS hyggst þó beita mismunandi kvöðum í 6 sveitarfélögum. 

Frá því að markaðgreining fór fram árið 2014 hefur markaðshlutdeild Mílu lækkað úr 83% niður í 63%. PFS telur að þó markaðshlutdeildin hafi lækkað töluvert þá sé hún enn það há að hún gefi mjög sterka vísbendingu um umtalsverðan markaðsstyrk. Fleira rennir stoðum undir niðurstöðu um umtalsverðan markaðsstyrk Mílu, s.s. aðgangshindranir og skortur á samkeppni. Míla hefur ennþá yfir að ráða eina landsdekkandi aðgangsnetinu og hefur verið í stórfelldum fjárfestingum í ljósleiðaranetum á undanförnum árum. Þá er staða Símasamstæðunnar enn mjög sterk og Síminn er byrjaður að auka aftur við hlutdeild sína á fráliggjandi smásölumörkuðum.  

PFS hyggst því viðhalda útnefningu Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, sem eru kvöð um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, kostnaðarbókhald og eftirlit með gjaldskrá. PFS leggur til að kvaðirnar verði víðtækari í nokkrum atriðum, m.a. er lagt til að eftirlit með gjaldskrá nái til ljósleiðaraneta Mílu, kvöð verði um aðgang að rörum og lagnaleiðum og ítarlega verði kveðið á um birtingu upplýsinga um rör og lagnaleiðir og fyrirhugaðar jarðvegsframkvæmdir.

Markaður 3b, heildsölumarkaður fyrir miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur
Markaður þessi samanstendur af ýmsum bitastraumslausnum sem veita tengingu milli endanotanda og aðgangspunkts sem er miðlægur í fjarskiptaneti og notaðar eru til að veita hefðbundinn internetaðgang ásamt tengdri þjónustu m.a. IP síma og IPTV. Með ákvörðun 21/2014 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á hliðstæðum þjónustumarkaði (M5/2008) og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið.

PFS framkvæmdi ítarlega landfræðilega greiningu á umræddum markaði eftir sveitarfélögum, en komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir nokkuð mismunandi samkeppnisaðstæður milli sveitarfélaga væru þær ekki nægjanlega miklar til að réttlæta aðgreinda landfræðilega markaði. PFS hyggst þó beita mismunandi kvöðum í 7 sveitarfélögum. Frá því að markaðgreining fór fram árið 2014 hefur markaðshlutdeild Mílu lækkað úr 65% niður í 59%. PFS telur að þó markaðshlutdeildin hafi lækkað töluvert þá sé hún enn það há að hún gefi mjög sterka vísbendingu um umtalsverðan markaðsstyrk. Fleira rennir stoðum undir niðurstöðu um umtalsverðan markaðsstyrk Mílu, s.s. aðgangshindranir og skortur á samkeppni. Míla er eina fyrirtækið sem rekur landsdekkandi bitastraumsþjónustu. Staða Símasamstæðunnar er enn mjög sterk og Síminn er byrjaður að auka aftur við hlutdeild sína á fráliggjandi smásölumörkuðum.  

PFS hyggst því viðhalda útnefningu Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, sem eru kvöð um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, kostnaðarbókhald og eftirlit með gjaldskrá. PFS leggur til að kvaðirnar verði víðtækari í nokkrum atriðum, m.a. er lagt til að eftirlit með gjaldskrá nái til bitastraumslausna Mílu á ljósleiðaranetum.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum um þau drög að markaðsgreiningu sem hér eru lögð fram er til og með 11. júní nk.   

Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal til þeirra liða sem um ræðir.

Nánari upplýsingar veitir Guðmann Bragi Birgisson, netfang: gudmann(hjá)pfs.is.

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Póst- og fjarskiptastofnun vinnur nú að gerð frumdraga að markaðsgreiningum fyrir heildsölumarkað fyrir aðgang með fasttengingu af miklum gæðum (Markaður 4/2016) og heildsölumarkað fyrir stofnlínuhluta leigulína (Markaður 14/2004) og er áætlað að birta þau frumdrög í haust.

Sjá samráðsskjöl:

Frumdrög að greiningu á mörkuðum fyrir heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang með fasttengingu (Markaður 3a) og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur (markaður 3b).

Viðauki A-1 með frumdrögum að greiningu, reifun markaðsgreininga í Evrópu er varða landfræðilega skilgreiningu markaða.

 

Til baka