Hoppa yfir valmynd

Ný upplýsingasíða um stöðu 5G á Íslandi í loftið

Tungumál EN
Heim

Ný upplýsingasíða um stöðu 5G á Íslandi í loftið

6. júlí 2020

Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett í loftið upplýsingasíðu um stöðu 5G farneta á Íslandi.

Á síðunni er að finna umfjöllun og upplýsingar um ýmis tæknileg atriði sem snúa að 5G farnetum, auk þess sem gerð er tilraun til að svara algengum spurningum sem fram hafa komið í umræðunni.

En hvað er 5G? Stutta svarið er að 5G er næsta kynslóð farneta. Þessi kynslóð hefur verið kölluð net iðnaðarins og er í raun límið í fjórðu iðnbyltingunni, forsenda fyrir því að ótal nettengdir hlutir og kerfi geti sent gögn sín á milli á leifturhraða. 

Hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) í þessu sambandi er fyrst og fremst að rýma tíðnisvið (eldri þjónusta á tíðnisviðinu) sem notuð verða fyrir 5G og sjá til þess að tíðnisvið sé tiltækt til úthlutunar á réttum tíma. PFS setur einnig fram kvaðir varðandi útbreiðslu og gæði þjónustunnar á 5G kerfunum. Auk þess er hlutverk PFS að hafa eftirlit með notkun tíðnisviðsins. Í því felst að fylgjast með því að þeim viðmiðum sem sett eru upp í 5G stöðlum sé fylgt, t.d. að ekki sé notað of mikið afl á sendastöðum, bæði vegna mögulegra truflana og vegna eftirlits með hámarks rafsegulgeislun frá sendum.

Mikið hefur verið rætt um hugsanleg áhrif 5G á heilsu fólks. Í því sambandi má nefna að mikilvægt er að skoða virtar heimildir um vísindalegar staðreyndir og rannsóknir sem birtar hafa verið. Alþjóða geislavarnarráðið setur viðmiðunarmörk fyrir ójónandi geislun eins og þá sem koma frá farnetssendum. Þau viðmiðunarmörk eru sett 50 sinnum lægri en þau viðmið sem talin eru geta haft skaðleg áhrif á mannslíkamann. 

5G á því ekki að hafa áhrif á heilsu fólks frekar en fyrri kynslóðir farsíma og farneta. Mikil þróun hefur orðið í tækni sem notuð er við byggingu búnaðar fyrir 5G. Tæknin mun byggja á fleiri og smærri sendum, sérstaklega á þéttbýlissvæðum og á það aðallega við um nýtingu á hærri tíðni eins og 26 GHz. Þessir nýju sendar útgeisla minna en núverandi sendar farneta og því er fyrirséð að ójónandi geislun verði minni en í núverandi kerfum þegar 2G, 3G og 4G sendar verða teknir úr notkun. 

Sjá umfjöllun um 5G og geislun á vef Evrópusambandsins (spurning 6) og fræðsluefni á vef Geislavarna ríkisins.

 

Til baka