Hoppa yfir valmynd

Frávísun á kvörtun Félags atvinnurekenda staðfest

Tungumál EN
Heim

Frávísun á kvörtun Félags atvinnurekenda staðfest

29. júlí 2020

""Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála (ÚFP) hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 1/2020 um frávísun á kvörtun Félags atvinnurekenda (FA) gegn Íslandspósti ohf. (ÍSP) vegna aðildarskorts.

Til að einstaklingur eða lögaðili geti átt aðild að stjórnsýslumáli þarf hann að eiga beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Skilyrði fyrir því að hagsmunasamtök geti átt aðild að stjórnsýslumáli, fyrir hönd félagsmanna sinna, er að umtalsverður fjöldi félagsmanna eigi beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls og að slík hagsmunagæsla af hálfu félagsins samrýmist tilgangi þess.

Í því máli sem hér um ræðir var um að ræða kvörtun FA sem laut að gjaldskrá ÍSP fyrir pakkasendingar innan alþjónustu, en félagið taldi að um ólögmæta niðurgreiðslu væri að ræða sem skaðaði samkeppnishagsmuni tiltekinna félagsmanna sinna. Í þessu sambandi tilgreindi FA fjögur fyrirtæki.

Í ljósi þess að fyrirtæki innan vébanda FA eru um 180 talsins af ýmsum stærðum og gerðum og starfa á mörgum og ólíkum sviðum atvinnulífsins taldi PFS að ekki væri uppfyllt skilyrði um að umtalsverður fjöldi félagsmanna FA ætti beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn kvörtunarmálsins. Var það því ákvörðun PFS að vísa kvörtuninni frá af þessum sökum.

Í úrskurði sínum í máli nr. 1/2020 kemst ÚFP að sömu niðurstöðu og staðfestir ákvörðun PFS. 

 

Til baka