Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína í ágreiningsmáli Vodafone og Mílu um aðgang að ljósleiðara NATO

Tungumál EN
Heim

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína í ágreiningsmáli Vodafone og Mílu um aðgang að ljósleiðara NATO

8. nóvember 2010

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 34/2010 í ágreiningsmáli Og fjarskipta (Vodafone) og Mílu um aðgang að ljósleiðara NATO.
Með bréfi þann 9. ágúst sl. óskaði Vodafone formlega eftir því að PFS mælti fyrir um skyldu Mílu til að veita aðgang að aðstöðu sinni vegna tenginga við ljósleiðara NATO. Míla hafði hafnað slíkri beiðni Vodafone á þeim forsendum að Varnarmálastofnun væri samningsaðili Vodafone og því ætti fyrirtækið að beina kröfu sinni að henni.
Í ákvörðuninni er hafnað þeim rökum Mílu að Vodafone hefði átt að beina kröfu sinni að Varnarmálastofnun, sem samningsaðila fyrirtækisins. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kröfu Vodafone væri réttilega beint að Mílu sem umráðaaðila yfir þeirri aðstöðu sem Vodafone þurfti aðgang að til að hægt væri að nýta þann ljósleiðaraþráð sem fyrirtækið hafði leigt af Varnarmálastofnun. Í því sambandi var vísað til þeirrar aðgangskvaðar sem hvílir á Mílu samkvæmt ákvörðun PFS nr. 20/2007.

Míla ehf. skal hafa forræði á því hvernig uppsetningu verður háttað og leggja til nauðsynlegar teikningar ef þurfa þykir. Fyrirtækið skal hafa hliðsjón af þeirri lýsingu sem fram kemur í erindi Og fjarskipta ehf. (Vodafone) um tilhögun tenginga sem óskað er eftir. Jafnframt er Mílu heimilt að krefja Vodafone um allan eðlilegan og sanngjarnan kostnað sem til fellur við að gera aðganginn virkan.

Miðað skal við að tengingum á þeim stöðum sem sérstaklega voru tilteknir í samningi Vodafone og Varnarmálastofnunar verði lokið fyrir 15. desember 2010. Ef nauðsynlegt er að rjúfa strenginn til að framkvæma tengivinnu þarf Vodafone hins vegar að sækja um heimild til þess frá Varnarmálastofnun. Í þeim tilvikum er miðað við að tengingum skuli lokið innan hæfilegs frests frá því að heimild Varnarmálastofnunar til að rjúfa strenginn liggur fyrir.  

Þá var og hafnað sjónarmiðum Mílu um að öryggi fjarskipta væri stefnt í hættu vegna vinnu við að gera aðganginn virkan, svo framarlega sem þess er gætt að fylgja venju- og skyldubundnum varúðarráðstöfunum sem viðhafðar eru í sambærilegum tilvikum.

Kröfu Vodafone um dagsektir var hafnað.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 34/2010 - Krafa Og fjarskipta ehf. um aðgang að aðstöðu hjá Mílu vegna ljósleiðara NATO (PDF)

 

 

Til baka