Hoppa yfir valmynd

Síminn braut gegn trúnaðarskyldum með því að hagnýta sér upplýsingar um viðskiptavini Nova og Vodafone

Tungumál EN
Heim

Síminn braut gegn trúnaðarskyldum með því að hagnýta sér upplýsingar um viðskiptavini Nova og Vodafone

26. nóvember 2010

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 37/2010 varðandi brot Símans hf. á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga.

Málið varðaði kvörtun Nova vegna meintra brota Símans á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt samtengisamningi félaganna með því að nota upplýsingar um fjarskiptaumferð í markaðslegum tilgangi. Við rannsókn PFS á málinu, sem m.a. byggðist á gögnum sem Samkeppniseftirlitið hafði lagt hald á í húsleit hjá Símanum, kom í ljós að Síminn hafði unnið umfangsmikla úthringilista um viðskiptavini annarra fjarskiptafyrirtækja sem höfðu að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavini þeirra. Nánar tiltekið var um að ræða upplýsingar um símanúmer, nöfn, kennitölur, heimilisföng og í sumum tilfellum starfsheiti viðkomandi viðskiptavina, ásamt upplýsingum um fjölda símtala hvers og eins, lengd í sekúndum og lengd meðalsímtals.  

Á seinni stigum málsins gerðist Vodafone aðili að málinu þar sem hegðun Símans beindist einnig gegn viðskiptavinum þess félags, sbr. ákvörðun PFS nr. 26/2010.

Síminn viðurkenndi að smásalan hafi ekki haft heimild til að nýta umræddar upplýsingar í markaðslegum tilgangi en hafnaði því að smásalan gæti ekki átt rétt á slíkum upplýsingum í ýmsum öðrum tilgangi. Með viðurkenningu sinni hefur félagið þannig sýnt viðleitni til að upplýsa málið og ná sáttum.

Í 26. gr. fjarskiptalaga er að finna ákvæði sem lýtur að innbyrðis samskiptum fjarskiptafyrirtækja og meðferð þeirra á trúnaðarupplýsingum sem þau öðlast við gerð eða framkvæmd samninga um aðgang eða samtengingu. Þar kemur m.a. fram að fyrirtækin skuli eingöngu nota upplýsingarnar í þeim tilgangi sem þær voru veittar og halda trúnað á öllum stigum. Einnig að óheimilt sé að afhenda upplýsingarnar öðrum, þ.á.m. öðrum deildum fyrirtækisins eða tengdum aðilum. Niðurstaða PFS var sú að Síminn hefði brotið gegn framangreindri lagagrein með því að nota umræddar umferðarupplýsingar í öðrum tilgangi en þær voru fengnar, þ.e. með afhendingu þeirra frá heildsölu til smásölu félagsins með það fyrir augum að nota þær í markaðslegum tilgangi. Með sömu háttsemi braut Síminn gegn ákvörðunum PFS frá árunum 2006 og 2008, viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta og afleiddum samtengisamningum við önnur fjarskiptafyrirtæki.

Póst- og fjarskiptastofnun lítur ofangreinda háttsemi mjög alvarlegum augum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir örugga, skilvirka og hagkvæma tilhögun fjarskiptamarkaðarins að ákvæði 26. gr. fjarskiptalaga sé virt af fjarskiptafyrirtækjum í hvívetna. Frávik frá því geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samkeppni og framþróun á fjarskiptamarkaði og skapað skaðlegt vantraust á milli fjarskiptafyrirtækja. PFS mun framkvæma, eða láta framkvæma fyrir sig, úttekt á samskiptum heildsölu og smásölu Símans í kjölfar ofangreindrar ákvörðunar.

Þá varðaði málið ágreining um það hvort ofangreind háttsemi Símans bryti í bága við ákvæði 42. gr. fjarskiptalaga að því er varðar vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs viðskiptavina annarra fjarskiptafélaga en Símans. PFS framsendir Persónuvernd þann hluta málsins  þar sem vinnsla Símans á slíkum persónuupplýsingum getur fallið undir almenn ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Engu að síður taldi PFS rétt að mæla fyrir um að Síminn setti sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við 7. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja. Reglurnar skulu bornar undir PFS til samþykktar eigi síðar en 1. mars 2011.  

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 37/2010 varðandi brot Símans á trúnaðarskyldum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga

 

Til baka