Hoppa yfir valmynd

Sameiginleg æfing evrópskra netsérfræðinga í vörnum gegn netvá

Tungumál EN
Heim

Sameiginleg æfing evrópskra netsérfræðinga í vörnum gegn netvá

8. nóvember 2010

Fimmtudaginn 4. nóvember sl. stóð Evrópusambandið, í samvinnu við Netöryggisstofnun Evrópu (ENISA), fyrir fyrstu sameiginlegu æfingunni í vörnum gegn alvarlegum öryggisatvikum í netkerfum álfunnar.  Öll ríki ESB ásamt EFTA löndunum Íslandi, Noregi og Sviss tóku þátt í æfingunni, ýmist sem þátttakendur eða áhorfendur. Fleiri en 150 sérfræðingar frá 70 stofnunum tóku þátt í æfingunni og þurftu þeir að bregðast við á fjórða hundrað öryggisatvika af ýmsu tagi. Sérfræðingur Póst- og fjarskiptastofnunar um netöryggi fylgdist með æfingunni fyrir hönd Íslands.

Æfingin var mikilvægt fyrsta skref til að styrkja netvarnir í Evrópu með því að byggja upp traust milli aðila á þessu sviði, efla samvinnu og auka skilning á mismunandi aðstæðum í hverju landi fyrir sig.  Settar voru upp ímyndaðar árásir netglæpamanna sem beindust að því að lama mikilvæg netsambönd milli ríkja innan Evrópu.  Sjónum var sérstaklega beint að mikilvægum innviðum netkerfanna og sýndarárásirnar látnar beinast að því að netsamband milli ríkjanna myndi rofna eða minnka verulega svo að almenningur, fyrirtæki og stofnanir ættu erfitt með að nálgast þjónustu á Netinu. Öryggis- og viðbragðsteymi um netvarnir (CERT/CSIRT hópar) voru þungamiðjan í æfingunni í hverju landi, en fleiri opinberir aðilar t.d. ráðuneyti, lögregluyfirvöld og leyniþjónustur komu einnig að lausn þeirra vandamála sem sett voru upp.

Þátttakendur voru sammála um að æfingin hafi verið mikilvæg fyrir sameiginlegar varnir landanna gegn netvá og mjög gagnleg til að efla samskipti og traust milli landanna. Einnig voru þátttakendur sammála um að framhald þurfi að vera á slíkum æfingum ekki síst til að samhæfa viðbrögð við alvarlegum öryggisatvikum enn frekar og auka skilning milli manna á mismunandi aðstæðum í hverju landi fyrir sig.  Að þessu sinnu tóku eingöngu opinberir aðilar þátt í æfingunni en nauðsynlegt þykir að fulltrúar einkageirans í hverju landi taki þátt í framhaldinu auk opinberra aðila.

Póst- og fjarskiptastofnun telur mikilvægt að Ísland taki með virkum hætti þátt í þessari samvinnu og byggi þar með upp traust og tengsl við önnur lönd.  Netið er án landamæra og allir bera sinn hluta af ábyrgð á öryggi þess.

PFS telur einnig mikilvægt að sambærileg æfing gegn öryggisatvikum í íslenskum fjarskiptanetum verði haldin hér innanlands.  Slík æfing þyrfti að ná yfir alla mikilvægustu þættina í netunum og vera með þátttöku bæði opinberra aðila og einkageirans, t.d. fjarskiptafyrirtækja.

Sjá einnig fréttatilkynningu Netöryggisstofnunar Evrópu (ENISA) um æfinguna.

 

 

 

Til baka