Hoppa yfir valmynd

Kvaðir um alþjónustu takmörkunum háðar

Túngumál EN
Heim

Kvaðir um alþjónustu takmörkunum háðar

30. mars 2005

Fjarskiptalög nr. 81 frá árinu 2003 heimila ekki, líkt og fullyrt var í leiðara Morgunblaðsins 30. mars, að leggja megi á Landsímann eða önnur fjarskiptafyrirtæki útvíkkaðar kvaðir um að veita þjónustu umfram alþjónustu, t.d. þá að koma upp breiðbandstengingum í dreifbýli.
 
Íslensk fjarskiptalög taka mið af alþjónustutilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/22/EB. Í henni er alþjónusta skilgreind sem sú lágmarksþjónustu sem stjórnvöldum er skylt að tryggja öllum þegnum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu. Þetta er gert með því að leggja kvaðir á fyrirtæki sem rekur fjarskiptanet- eða þjónustu.

Þar sem tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/22/EB heimilar ekki aðrar kvaðir en þær sem þegar eru innleiddar í íslensk lög verður að leita annarra leiða en útvíkka alþjónunstukvaðir, vilji íslensk stjórnvöld bæta fjarskiptaþjónustu. Má þar t.d. benda á 23. grein fjarskiptalaga þar sem samgönguráðherra er heimilt að leggja í framkvæmdir, rekstur eða þjónustu sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, ef ætla má að fjarskiptaþjónustan skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða.

Samkvæmt gildandi lögum telst alþjónusta vera talsímaþjónusta, almenningssímar, handvirk þjónusta og þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir. Einnig gagnaflutningsþjónusta með allt að 128 kbps hraða. Kvöðin um alþjónustu er nú lögð á Landssímann og er hún nánar skilgreind í rekstrarleyfi útgefnu í janúar 2002.

Alþjónusta, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu, er veitt hérlendis, ef undan eru skildir um 70 sveitabæir sem ekki njóta 128 kbps tengihraða. Er nú verið að kanna með hvaða hætti bæta megi þar úr, en kostnaður við hverja tengingu getur numið á aðra milljón króna. 


 

Til baka