Hoppa yfir valmynd

Síminn breytir tímamælingum fyrir gjaldtöku

Tungumál EN
Heim

Síminn breytir tímamælingum fyrir gjaldtöku

14. júní 2005

Póst - og fjarskiptastofnun vill vekja athygli á að Síminn hefur tilkynnt um breytingar á gjaldtöku símtala og tóku þær gildi 2. júní s.l. Þær fela í sér að ekki verður lengur innheimt samkvæmt sekúndumælingu í einstaklingsáskriftum farsíma (Frístundaáskrift, Ásinn og Almenn áskrift) heldur sem hér segir:

- Innan GSM kerfis Símans er fyrsta mínútan gjaldfærð og síðan hverjar 10 sekúndur.
- Út fyrir GSM kerfi Símans eru fyrstu 20 sekúndurnar gjaldfærðar og síðan hverjar 10 sekúndur. 

Engin breyting er gerð á gjaldtöku fyrir áskrift að Frelsi.

Í framhaldi af tilkynningu Símans óskaði Póst- og fjarskiptastofnun eftir upplýsingum um afleiðingar þessara breytinga fyrir neytendur og hvernig þeim yrði gerð grein fyrir þeim. Í svarbréfi frá Símanum dagsettu 8. júní segir m.a. að þessar breytingar samhliða nýjum sparnaðarleiðum muni leiða til lækkunar á símreikningum viðskiptavina sem eru skráðir fyrir slíkum afsláttarkjörum. Hins vegar muni breytingin leiða til hækkunar ef einungis er horft á breytingu á sekúndumælingu símtala.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum mun þessi breyting á gjaldtöku leiða til þess að gjöld farsímanotenda með einstaklingsáskrift, sem ekki nýta sér sparnaðarleiðir, hækka að meðaltali um 2880 kr. á ári. Breytingin snertir tugi þúsunda farsímanotenda.  

Tilkynnt var um téða breytingu á gjaldtöku símtala á vefsíðu Símans. Telur Póst- og fjarskiptastofnun ólíklegt að neytendur fylgist að öðru jöfnu með verðbreytingum sem birtar eru með þeim hætti.
Í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun segir að hún eigi að stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæi gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar fjarskipta- og póstþjónustu.

Frekari uppl. veitir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar
í s. 510-1500

Fréttatilkynning 14. júní 2005

 

 

 

 

Til baka