Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu

29. janúar 2010

Líkt og áður hefur komið fram á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) þá hefur verið unnið að gerð reiknivélar fyrir neytendur þar sem mögulegt verður að bera saman verð á síma- og netþjónustu. Er tilgangur reiknivélarinnar að auðvelda neytendum að leggja mat á hvaða síma- og/eða netþjónusta hentar þeim best.

Í lögum um fjarskipti nr.  81/2003 (1. mgr. 41. gr.) er mælt fyrir um heimild til handa PFS að setja reglur um gæði fjarskiptaþjónustu og framsetningu upplýsinga sem birtar eru svo að notendur hafi aðgang að ítarlegum, samanburðarhæfum og auðskiljanlegum upplýsingum.

Á grundvelli þessa ákvæðis hyggst PFS nú setja slíkar reglur.
Er ætlunin að reglurnar verði til hagsbóta fyrir neytendur á fjarskiptamarkaði og stuðli að bættri neytendavernd og aukinni verðvitund almennings.

Markmið reglnanna er m.a að skapa grundvöll fyrir því að notendur geti sjálfir, með gagnvirkum hætti, gert marktækan samanburð á verðum fyrir fjarskiptaþjónustu með tilliti til eigin notkunar.

Hér með er markaðsaðilum og almenningi gefinn kostur á því að kynna sér drög að reglunum og gera athugasemdir við þær.

Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum við drögin er til 5. febrúar nk. og skulu þær sendar á netfangið pfs@pfs.is.

Reglur um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu - drög (PDF)

 

Til baka