Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði vegna viðmiðunartilboðs Símans um samtengingu talsímaneta

6. október 2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar eftir samráði um fyrirhugaðar breytingar á viðmiðunartilboði Símans um samtengingu talsímaneta (RIO). Síðast samþykkti stofnunin viðmiðunartilboð Símans á þessu sviði sem dagsett er 1. júní 2009, í kjölfar markaðsgreiningar á mörkuðum 8-10 (samtengingarmarkaðir) frá desember 2008.

Þær breytingar sem nú stendur til að gera og samráð er hér með boðað um eru tvenns konar, sbr. eftirfarandi:

1. Að tillögu Símans eru fyrirhugaðar breytingar er varða nýja þjónustuleið sem felst í því að þjónustuveitendur með fast forval geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning (e. single billing) fyrir bæði aðgengi og símnotkun, sbr. ákvörðun PFS nr. 30/2008 (markaðir 1-6). Sjá viðmiðunartilboð Símans og viðauka þess með tillögum Símans til breytinga hér að neðan. Einnig má finna viðmiðunartilboðið og viðauka þess með umræddum breytingum á vef Símans, http://www.siminn.is/um-simann/heildsala/talsimi/.

2. PFS leggur til að neðangreinda breytingu á viðmiðunartilboðinu, sem yrði 9. gr. þess:

„Síminn getur krafist þess að viðsemjandi uppfylli lágmarkskröfur um öryggi, samkvæmt reglum Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum og nr. 1222/2007 um virkni almennra fjarskiptaneta, áður en samtengingu neta verði komið á. Í því felst m.a. að viðsemjandi skuli skjalfesta öryggisskipulag sitt í samræmi við 7. gr. reglna nr. 1221/2007 og setja sér öryggisstefnu, útbúa áhættumat og gera viðeigandi lýsingu á öryggisráðstöfunum að því er varðar samtengingu neta, sem og hann viðhaldi órofinni slóð sönnunargagna sem nýst gætu vegna öryggisatburða. Síminn áskilur sér rétt til þess að leita álits Póst- og fjarskiptastofnunar á því hvort öryggisskipulag viðsemjanda teljist fullnægjandi.“

Rökstuðningur PFS fyrir breytingu þeirri sem mælt er fyrir um í 2. lið er eftirfarandi:
Í ljósi markmiðs um að tryggja öryggi og heildstæði neta, þ.m.t. að fyrirbyggja ólögmæta misnotkun fjarskipta í hagnaðarskyni, þykir stofnuninni rétt að Síminn geti gert þá kröfu til viðsemjanda síns að hann uppfylli lágmarkskröfur um öryggi að því er varðar samtengingu neta. Er þá horft til þess að skortur á fullnægjandi öryggi hjá viðsemjanda getur dregið úr viðnámsþrótti öryggisvarna í kerfum Símans, auk annarra fjarskiptafyrirtækja sem hafa samtengingu við hann, og þannig stuðlað almennt að veikingu á öryggi almennra fjarskiptaneta hér á landi. Því leggur stofnunin til að nýjum skilmála verði bætt við viðmiðunartilboð Símans.

Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er til föstudagsins 22. október n.k.
Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið oskarh(hja)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar.

Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan.

Viðmiðunartilboð Símans um samtengingu talsímaneta, dags. 12. september 2010 (PDF)

 

 

Til baka