Hoppa yfir valmynd

PFS kveður á um Síminn skuli veita öðrum fyrirtækjum aukinn aðgang að Ljósneti sínu

Túngumál EN
Heim

PFS kveður á um Síminn skuli veita öðrum fyrirtækjum aukinn aðgang að Ljósneti sínu

21. desember 2012

Póst- og fjarskiptastofnun(PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 38/2012 frá 14. desember sl. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Síminn skuli veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aukinn heildsöluaðgang að VDSL og ADSL kerfum sínum á kostnaðargreindum verðum. VDSL kerfi Símans, öðru nafni Ljósnet Símans, er háhraðanetkerfi sem Síminn hefur verið að byggja upp síðustu misseri og býður upp á mun öflugri og hraðari gagnaflutning en hin eldri ADSL tækni.

Segja má að ákvörðunin sé tvíþætt. Annars vegar er kveðið nákvæmlega á um hvernig Síminn skuli standa að því að veita þennan aukna aðgang með svokallaðri „aðgangsleið 1".  Hins vegar skal aðgangurinn vera þannig að fyrirtækin geti stýrt gæðum tenginganna og þar með verði þeim mögulegt að nota kerfi Símans til að bjóða aðra þjónustu en venjulega internetþjónustu, t.d. heimasíma um nettengingu (VoIP) og stafrænt, gagnvirkt sjónvarp (IPTV).

PFS telur ákvörðunina nú mikilvægt skref til að efla samkeppni á gagnaflutningsmarkaði en þess má geta að net annarra netrekenda, t.d. Gagnaveitu Reykjavíkur og Tengis, eru opin öllum þjónustuveitendum með möguleikum til gæðastýringar og fjölbreytni í þjónustu.

Samkvæmt ákvörðuninni skal Síminn hafa umræddan aðgang tilbúinn og afhenda PFS bráðabirgðaverð fyrir hann eigi síðar en 1. febrúar nk. Mun stofnunin í framhaldi af því fara yfir verð og kostnaðargreiningu Símans og mæla fyrir um endanleg verð með ákvörðun.

Ákvörðun þessi er tekin í framhaldi af ágreiningi á milli Vodafone og Símans um skyldu Símans til að veita aðgang að breiðbandskerfum sínum (bitastraumi) samkvæmt fyrrnefndri aðgangsleið 1 sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 8/2008. Þar var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið.

Nú stendur yfir greining PFS á markaði 5 (heildsölumarkaður fyrir bitastraumsaðgang) þar sem nánar verður kveðið á um aðgang sem þennan. Áætlað er að endanleg ákvörðun í því máli liggi fyrir næsta vor.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1 hjá Símanum (PDF)

 

 

 

Til baka