Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS um aðgang Vodafone að ljósleiðurum Mílu á landsbyggðinni

Tungumál EN
Heim
18. október 2011

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 28/2011 um kröfu Vodafone um aðgang að leigulínum Mílu.

Málið varðaði ágreining um aðgang Vodafone að leigulínum Mílu á fimm leiðum á landsbyggðinni. Um er að ræða aðgang að svokölluðum svörtum ljósleiðurum en það eru ljósleiðarasambönd án endabúnaðar eða annarrar þjónustu af hálfu þjónustusala. PFS þurfti að leggja mat á það hvort beiðnir Vodafone fælu í sér sanngjarnar, eðlilegar, raunhæfar og framkvæmanlegar beiðnir um aðgang að slíkum ljósleiðurum, í samræmi við þær kvaðir sem lagðar voru á Mílu með ákvörðun PFS nr. 20/2007 (leigulínumarkaðir). Hér vógust á samkeppnissjónarmið og sjónarmið þjónustuaðila er snúa að svigrúmi hans til að haga þróun og útbreiðslu fjarskiptanetsins með þeim hætti sem hagkvæmast þykir út frá hans sjónarhóli. 

Annars vegar varðaði málið uppsögn Mílu á ljósleiðarasambandi á milli Egilsstaða og Hafrafells sem er um 7 km. leið. Niðurstaða PFS var sú að Mílu væri óheimilt að segja upp umræddu sambandi nema félagið byði Vodafone upp á tvær nánar tilteknar staðgöngulausnir sem Vodafone getur valið um. 

Hins vegar varðaði málið synjun Mílu á beiðnum Vodafone um kaup á ljósleiðarasamböndum á fjórum nýjum stöðum. Niðurstaðan var sú að Mílu ber að veita Vodafone aðgang að ljósleiðara á milli Egilsstaða og Fellabæjar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar og Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hins vegar er Mílu óskylt að veita Vodafone aðgang að ljósleiðara á milli Keflavíkur og Sandgerðis þar sem ljósleiðarar liggja ekki þar á lausu.   

Ákvörðun PFS nr. 28/2011 um kröfu Vodafone um aðgang að leigulínum Mílu (PDF)

 

 

Til baka