Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um að heimila samnýtingu á tíðnum

Túngumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um að heimila samnýtingu á tíðnum

4. mars 2014

Póst- og fjarskiptastofnun kallar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar stofnunar um að heimila Fjarskiptum hf. (Vodafone) og Nova ehf. samnýtingu á tíðnum sem félögunum hefur verið úthlutað til veitingar GSM, UMTS/3G og LTE/4G þjónustu á 800 MHz, 900 MHz (að undanskildum 2x5 MHz), 1800 MHz og 2100 MHz tíðnisviðunum.

Vodafone og Nova hyggja á stofnun félags, í jafnri eigu félaganna, sem mun hafa með höndum eignarhald, uppbyggingu og þróun dreifikerfis fyrir alla almenna farsímaþjónustu félaganna. Er ætlunin með samstarfinu að
i) vinna sameiginlega að innleiðingu dreifikerfis á landsvísu,
ii) beita hinni nýju tækni til þess að ná fram umtalsverðri hagræðingu í fjárfestingar- og rekstrarliðum til framþróunar og reksturs á 2G/GSM og 3G/UMTS dreifikerfum,
iii) að til verði eitt heilsteypt dreifikerfi fyrir 2G/GSM, 3G/UMTS og 4G/LTE farsíma- og netþjónustu (3GPP stöðluð farsímatækni) um allt land.

Ein af forsendum fyrirhugaðs samstarfs eru þær tækniframfarir sem orðið hafa á undanförnum árum, en dreifikerfið, sem mun byggja á SingleRan tækni og sömuleiðis MOCN tækni (Multi Operator Core Networks) sem báðar byggja á 3GPP stöðlum, gerir kleift að samreka í einum sendi 2G/GSM, 3G/UMTS og 4G/LTE (SingleRan) þjónustu ásamt því að samnýta tíðnirófið (MOCN).

Félögin hafa því óskað eftir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir samnýtingu tíðniheimilda sinna. Þá ber þess að geta að félögin hafa jafnframt óskað eftir undanþágu til Samkeppniseftirlitsins frá bannákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2005, sbr. 15. gr. þeirra.

Póst- og fjarskiptastofnun hyggst veita samþykki sitt fyrir fyrirhugaðri samnýtingu tíðna líkt og henni er lýst í erindi félaganna. Að mati stofnunarinnar getur sú samnýting sem mun eiga sér stað ekki talist fela í sér framsal á þeim réttindum sem tíðniheimildirnar veita félögunum, líkt og bann er lagt við í 2. mgr. 7. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Ekki er um varanlega yfirfærslu á tíðniheimildum að ræða á milli lögaðila, þ.e. réttindin sjálf flytjast ekki frá upphaflegum tíðnirétthafa og yfir til annars aðila sem þá öðlast yfirráðarétt yfir tíðniheimildinni. Þá getur samnýting tíðna, að mati stofnunarinnar ekki sjálfkrafa talist vera framsal á réttindum til notkunar tíðna. Sér í lagi þegar yfirráðaréttur yfir réttindunum flyst ekki milli aðila.

Í samræmi við 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun leitar stofnunin nú eftir umsögnum hagsmunaaðila áður en stofnunin tekur endanlega ákvörðun um heimild til samnýtingar á tíðnum. Stofnunin áréttar að samráð þetta tekur eingöngu til samnýtingar tíðna en ekki samkeppnislegra áhrifa sem af samstarfinu kunna að stafa. Slíkt er á höndum Samkeppniseftirlitsins á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Vilji hagsmunaaðilar tjá sig sérstaklega um slík áhrif samstarfsins er ekki rétt að beina þeim athugasemdum til Póst- og fjarskiptastofnunar.

PFS hvetur alla þá sem telja að þeir hafi hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um samnýtingu tíðniheimilda Vodafone og Nova að koma að athugasemdum sínum á framfæri við stofnunina fyrir 18. mars nk.

Stofnunin mun birta opinberlega allar umsagnir og athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Nánari upplýsingar veitir Unnur Kr. Sveinbjarnardóttir lögfræðingur, netfang: unnur(hjá)pfs.is

Samráðsskjal vegna fyrirhugaðar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunarum heimild til samnýtingar tíðniheimilda Fjarskipta hf. og Nova ehf.

Til baka