Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vegna breytinga á gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttar, afsláttarskilmálum og viðskiptaskilmálum því tengdu.

6. nóvember 2012

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 5/2012, þann 31. október sl., úrskurðað í máli Póstmarkaðarins, Íslandspósts og Póstdreifingar gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Fyrirtækin kærðu ákvörðun PFS nr. 16/2012, frá 24 maí 2012, um breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar, afsláttarfyrirkomulagi og viðskiptaskilmálum.

Í hinni kærðu ákvörðun var samþykkt ný verðskrá Íslandspósts innan einkaréttar. Auk þess var kveðið á um nýtt afsláttarfyrirkomulag fyrir svokallaðan magnpóst. Þessu tengt var lagt fyrir Íslandspóst að gera tilteknar breytingar á viðskiptaskilmálum félagsins.

Markmið breytinganna á uppbyggingu verðskrár Íslandspósts var m.a. að tengja betur saman en áður kostnað Íslandspósts af einstökum þjónustuleiðum.

Helstu breytingar á verðskrá Íslandspósts voru þær að verðskrá fyrir almenn bréf (A þjónusta, dreifing daginn eftir) fór úr 97 kr. í 120 kr. Samhliða var kveðið á um svokallaða B þjónustu sem felur í sér dreifingu innan 3ja daga frá póstlagningu, en gjaldið fyrir slíka þjónustu var ákveðið 103 kr.

Verðskrá fyrir magnpóstsaðila tók einnig nokkrum breytingum. Sett voru tvö grunnverð eftir því hvaða þjónusta keypt er hverju sinni, þ.e. A þjónusta eða B þjónusta. Grunnverð fyrir A þjónustu var ákveðið 88 kr. og fyrir B þjónustu 71 kr. Þessu til viðbótar var kveðið á um magnafslætti fyrir afhent magn í hvert sinn og á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið viðmiðunartímabil.

Úrskurðarnefnd staðfesti með úrskurði sínum forsendur PFS í hinni kærðu ákvörðun, aðrar en þær sem vörðuðu afslátt á grundvelli heildarviðskipta yfir ákveðið tímabil. Einnig felldi nefndin úr gildi skilmála sem heimilaði 2% frávik frá því að ekki mætti blanda saman pósti til útlanda við innanlandspóst.

Sjá úrskurðinn í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2012 (PDF)

 

Til baka