Hoppa yfir valmynd

4G tíðnir boðnar upp á Íslandi síðar á þessu ári

Túngumál EN
Heim

4G tíðnir boðnar upp á Íslandi síðar á þessu ári

13. apríl 2012

Undanfarið hefur verið talsverð umræða um næstu kynslóð farnetsþjónustu sem oft er nefnd fjórða kynslóð eða 4G. Spurt er hvenær slík þjónusta verði komin í gagnið hér á landi, ekki síst í tengslum við mikla aukningu í notkun spjaldtölva og snjallsíma.  Með 4G margfaldast flutningsgeta og hraði í fjarskiptanetum og einnig mun svokallaður tengitími styttast til muna frá því sem er í 3G þjónustunni. Margir eru því farnir að hugsa sér gott til glóðarinnar og huga að því að kaupa sér tæki sem geta nýtt þessa tækni.

4G tæki byggð fyrir mismunandi tíðnisvið – ekki hægt að nota sömu tækin allsstaðar
Þegar kaupa á tæki sem getur nýtt 4G tækni er nauðsynlegt að hafa í huga að þau tíðnisvið sem nota á fyrir þessa þjónustu eru ekki samræmd um allan heim.  Hvert 4G tæki er byggt fyrir notkun á ákveðnum tíðnisviðum  og þau svið sem notuð verða eru ekki þau sömu í Evrópu og t.d. í Bandaríkjunum.  Ísland fylgir Evrópu hvað varðar skilgreind tíðnisvið fyrir ákveðna notkun.  Það verður því ekki hægt að nota 4G tæki hér á landi eða annarsstaðar í Evrópu sem byggð eru fyrir 4G net í Bandaríkjunum eða Kanada. Hins vegar er ekki ólíklegt að þetta breytist á næstu árum og ný tæki verði þróuð og framleidd sem hægt verður að nota á mismunandi tíðnisviðum.
Þetta er hið sama og gilti um farsíma þar til fyrir örfáum árum.  Venjuleg farsímaþjónusta í Bandaríkjunum hefur verið veitt á öðrum tíðnum en í Evrópu og á Íslandi og áður fyrr þurfti fólk iðulega að verða sér úti um sérstaka síma þegar farið var á milli.

Úthlutun á þessu ári
Síðar á þessu ári mun Póst- og fjarskiptastofnun úthluta tíðnum fyrir 4G þjónustu á Íslandi.  Það verður gert með uppboði og verður 800 MHz og 1800 MHz tíðnisviðunum úthlutað fyrst. Íslendingar geta því vænst þess að 4G farnetsþjónusta standi til boða hér á landi undir lok þessa árs eða á því næsta.

 

 

Til baka