Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til aukasamráðs um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum

Tungumál EN
Heim
27. október 2011

Þann 18. mars s.l. efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til samráðs um frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Athugasemdir bárust frá Samkeppniseftirlitinu, Símanum hf., Fjarskiptum ehf. (Vodafone), Nova ehf. og IP-fjarskiptum ehf. (Tal).

Er PFS var að leggja lokahönd á uppfærslu greiningarinnar m.t.t. framkominna athugasemda í maí s.l. og verið var að undirbúa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) bárust fregnir um fyrirhugaðan samruna Vodafone og Tals. PFS ákvað að fresta ákvörðun í málinu þar til Samkeppniseftirlitið hefði lagt mat sitt á samrunann. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2011 frá 4. október s.l. ógilti stofnunin umræddan samruna. Eftir það tók PFS þráðinn upp að nýju við umrædda markaðsgreiningu. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins kallar ekki á sérstakt aukasamráð þar sem aðstæður breyttust ekki á farsímamarkaði í kjölfar hennar.

Þann 13. apríl s.l., eftir að frumdrög PFS fóru í innanlandssamráð, birti ESA tilmæli um kvaðir varðandi lúkningarverð. Þar er kveðið á um ýmis atriði sem fjarskiptaeftirlitsstofnanir skulu hafa í huga við útfærslu kvaðar um eftirlit með gjaldskrá, þ.m.t. útreikning á lúkningarverðum. Þar kemur m.a. fram sú meginregla að kostnaðargreining vegna lúkningargjalda skuli gerð á grundvelli „bottom-up" LRIC aðferðar (langtíma viðbótarkostnaður). Fjarskiptaeftirlitsstofnunum er veittur almennur aðlögunarfrestur til 31. desember 2012 til að undirbúa LRIC kostnaðarlíkan. Farsímafélögin hafa sama frest til að aðlaga viðskiptaáætlanir sínar að slíkri kostnaðargreiningaraðferð. Fjarskiptaeftirlitsstofnunum sem búa við takmörkuð aðföng (fjárhagsleg og fagleg) er veittur lengri aðlögunarfrestur eða til 1. júlí 2014 eða jafnvel lengur á gildistíma umræddra tilmæla. Heimilt er að beita t.d. verðsamráði (benchmark) í stað LRIC aðferðar. Verð skal ekki vera hærra en meðalverð þeirra EES-ríkja sem beita LRIC aðferð við útreikning lúkningargjalda í farsíma.

Reynslan á EES-svæðinu sýnir að kostnaður við gerð LRIC líkana hleypur á tugum milljóna fyrir hvert líkan og hverja uppfærslu. Gera þyrfti líkan fyrir íslenska farsímamarkaðinn með tilheyrandi kostnaði fyrir markaðsaðila. Ekki þykir rétt að svo stöddu að mæla fyrir um slíkt þar sem kostnaðaraukinn myndi að líkindum á endanum lenda á neytendum í formi hærri gjalda. PFS hefur því í hyggju að nýta sér ofangreinda undanþágu, sbr. 4. mgr. 32. gr. fjarskiptalaga, og mæla fyrir um kostnaðargreiningaraðferð á viðkomandi markaði sem sem byggist á verðsamanburði og aflétta kvöð á Símann um árlega uppfærslu á kostnaðargreiningum og kostnaðarbókhaldi.

PFS hyggst framkvæma árlegan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Fyrsta verðsamanburðinum skal lokið eigi síðar en 1. nóvember 2012. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita LRIC aðferð, m.v. lúkningarverð þann 1. júlí á samanburðarári. Verð sem ákvörðuð verða í umræddum verðsamanburði skulu síðan gilda frá 1. janúar árið eftir í eitt ár, í fyrsta sinn frá og með 1. janúar 2013. Verðaðlögunarferli það sem kveðið var á um í ákvörðun PFS nr. 18/2010 gildi þó áfram til 1. janúar 2013.            

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 14. nóvember nk. Þar sem um er að ræða afmarkað aukasamráð og mikilvægt er að málið tefjist ekki meira en orðið er verður ekki unnt að veita frekari frest. Hinn tiltölulega stutti samráðsfrestur helgast af því að aukasamráð þetta er mjög afmarkað. Sérstaklega er tekið fram að samráðið nær ekki til annarra þátta frumdraganna svo sem um fjárhæð lúkningarverða hinna ýmsu fjarskiptafyrirtækja eða lengd aðlögunarfrestsins. Ítarlegar athugasemdir hafa borist PFS um þau atriði og mun stofnunin vega þær og meta m.t.t. hugsanlegra breytinga á frumdrögunum áður en endanleg drög að ákvörðun verða send til ESA til samráðs.

Sjá nánar:

Aukasamráð um markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (PDF)

Upphaflegt samráð um frumdrögin: Frétt hér á vefnum 18. mars s.l.

Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.

 

Til baka