Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Athugasemdir 365-ljósvakamiðla

8. mars 2005

Athugasemdir 365-ljósvakamiðla ehf. vegna fyrirhugaðs útboðs á UHF tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp,
skv. DVB-T staðli.

 

365–ljósvakamiðlar fagna fyrirhuguðu útboði Póst og fjarskiptastofnunar á ofangreindu tíðnibandi. Eins og Póst og fjarskiptastofnun er kunnugt hafa 365–ljósvakamiðlar unnið að uppbyggingu á stafrænum sjónvarpssendingum s.l. mánuði. Enn sem komið er ná þær sendingar einungis til höfuðborgarsvæðisins, en markmið 365–ljósvakamiðla er að láta þessar sendingar ná til landsbyggðarinnar eins fljótt og auðið er. Forsenda þess er úthlutun á því tíðnibandi, sem stefnt er að bjóða út.

365–ljósvakamiðlar gera eftirfarandi athugasemdir við fyrirkomulag útboðsins.

  1. Fjöldi rása. 365–ljósvakamiðlar gera alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðan fjölda rása, sem á að bjóða út og að hver og einn geti einungis boðið í tvær rásir að hámarki. 365–ljósvakamiðlar dreifa í dag níu sjónvarpsstöðvum. Markmið 365–ljósvakamiðla er að fjölga sjónvarpsstöðvum talsvert á þessu ári. 365–ljósvakamiðlar munu stefna á að hefja útsendingar á a.m.k. tveimur sjónvarpsstöðvum nú fljótlega og stefnt er að því að fleiri bætist í hópinn á þessu ári eða í byrjun þess næsta, þannig að innan 18 mánaða hafi bæst í hóp sjónvarpsstöðva 365–ljósvakamiðla a.m.k. fimm til átta sjónvarpsstöðvar. Tvær rásir eru því engan vegin nægjanlegt framboð, enda varla nægjanlegt fyrir útsendingar 365-ljósvakamiðla eins og þær eru í dag. 365–ljósvakamiðlar munu óska eftir því að fá fjórum til fimm rásum úthlutað, svo það geti þjónustað viðskiptavini sína um allt land með sambærilegum hætti. Á þessum tímapunkti vill 365-ljósvakamiðlar skoða frekar hve heppilega tilteknar rásir í útboðinu henti til notkunar fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar (SFN) miðað við núverandi stöðu hliðrænna sjónvarpsútsendinga á SV-horni landsins. Með fyrrgreindum ástæðum treystir 365-ljósvakamiðlar sér ekki til að gefa tæmandi tæknilegt álit varðandi notkun á væntanlega útboðnum rásum.

  1. Endurvarp erlendra rása. 365–ljósvakamiðlar telja að breyta eigi þeirri reglu sem fyrst að ekki sé heimilt að nota þessar rásir til þess að senda út viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár erlendra sjónvarpsstöðva.

  1. Framkvæmd útboðs. 365-ljósvakamiðlar vilja vekja athygli á mótsögn í helstu þáttum sem munu ráða varðandi val á tilboðum þ.e. fullnýtingu á rásunum sem snúast um nýtingu fjölflétta (muxa) með ákveðnum fjölda dagskrá vs. geyma pláss fyrir þriðja aðila.

Útbreiðslusvæði. 365–ljósvakamiðlar telja það of íþyngjandi kröfu að útbreiðslusvæði skuli ná til að lágmarki 98% heimila innan tveggja ára. 365–ljósvakamiðlar telja að eðlilegra væri að miða við 94% heimila innan þeirra tímamarka og 98% á fimm til sjö árum. Annað felur í sér of mikinn kostnað og er of íþyngjandi fyrir rekstur einkarekinna fjölmiðla. 365-ljósvakamiðlar telja að of hátt markmið í þessu geti staðið í vegi fyrir annarri uppbyggingu 365-ljósvakamiðla. Þá telja 365–ljósvakamiðlar óeðlilegt að nota tiltekinn fjölda sveitarfélaga sem sérstaka mælieiningu í þessu samhengi, enda er það yfirlýst stefna stjórnvalda að fækka sveitarfélögum frá því sem er í dag. Vegna þess verður að telja það óeðlilegt að miða útbreiðslu m.a. við fjölda sveitarfélaga. Með þeim hætti hafa ákvarðanir stjórnvalda og vilji íbúa í sveitarfélögum bein áhrif á uppbyggingu dreifingarkerfis fyrir stafrænt sjónvarp, án þess að þeim sé ætlað það.

 

Í gagni Póst og fjarskiptastofnunar kemur fram í tl. 5 að leyfishafa verði heimilt að uppfylla útbreiðslukröfur á tilteknum svæðum með annarri stafrænni tækni en DVB-T á UHF tíðnisviði, t.d. xDSL, ljósleiðara eða um gervihnött, enda verði sýnt fram á að veitt verði sambærileg þjónusta. 365 – ljósvakamiðlar telja að það myndi horfa til hins betra ef þetta væri skilgreint betur m.a. með því að tiltaka hvaða lágmarkskröfur þurfi að gera svo þetta verði sambærilegt

 

365-ljósvakamiðlar óska eftir frekari uppl. um tilgreindan lágmarkssviðstyrk í útboðsgögnum þ.e. hvernig 56 dB V/m er fengin út sem viðmiðunartala fyrir stafræna móttöku viðtækja/afruglara (STB).

 

  1. Varðandi nýtingu rása þá er miðað við 5 dagskrár fyrir hverja rás. Hvað með fjölda dagskráa í háskerpusjónvarpi (HDTV)? 

Að öðru leyti lýsa 365–ljósvakamiðlar yfir ánægju sinni með þessa vinnu, samhliða því sem sú ósk er sett fram að vinnunni við útboðið verði hraðað sem mest. 365–ljósvakamiðlar munu geta hafið tilraunasendingar með þessari tækni innan tveggja mánaða, en telja verður að ekkert annað fyrirtæki á þessum markaði hér á landi geti hafið slíkar útsendingar svo fljótt.

 

Virðingarfyllst,

 Kristján M. Grétarsson.

 

Til baka