Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði: Breytingar á uppbyggingu gjaldskrár Íslandspósts, afsláttarstigum og viðskiptaskilmálum

Tungumál EN
Heim
9. desember 2011

Með tilkynningu á heimasíðu PFS þann 29. júní 2010, efndi stofnunin til samráðs við hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðra breytinga Íslandspósts á uppbyggingu gjaldskrár fyrirtækisins innan einkaréttar sem og á afsláttarskilmálum. Umsagnir bárust frá Samkeppniseftirlitinu, Pósthúsinu (nú Póstdreifing), Póstmarkaðinum, Skiptum og Neytendasamtökunum.

Stofnunin hefur nú unnið úr þeim athugasemdum sem bárust. Einnig hefur farið fram greining á kostnaði Íslandspósts, ásamt því að margvíslegar fyrirspurnir hafa verið gerðar til Íslandspósts.

Þar sem frumniðurstöður PFS eru nokkuð frábrugðnar upphaflegu erindi Íslandspósts sem fór í samráð á sínum tíma, telur stofnunin rétt að hagsmunaaðilum sé gefið tækifæri til að tjá sig um þær fyrirhuguðu breytingar sem stofnunin leggur til.

Helstu breytingar sem PFS leggur til:
• Íslandspósti verður gert að reikna út 4 grunnverð sem taka eiga gildi sem einingarverð fyrir 50 gr. bréf innan einkaréttar.
• Almenningur eigi kost á að póstleggja „B“ póst sem dreifa megi á allt að þremur dögum.
• Sett verði skilyrði um stigvaxandi afslátt sem byggður er á grundvelli heildarviðskipta á hverju þriggja mánaða tímabili.
• Afsláttur vegna dreifingarhagræðis verði reiknaður inn í grunnverð.
• Jafnræði milli söfnunaraðila á markaði verði aukið með breytingum á skilmálum afsláttarkjara.
• Sett verði inn í viðskiptaskilmála skilyrði um hámarksmagn á dag sem Íslandspóstur getur afgreitt sem magnpóst.
• Fellt verði niður skilyrði um að gera þurfi sérstakan samning við Íslandspóst til að fá hámarksafslátt.

Í því samráðsskjali sem hér birtist hefur ekki verið reiknað út endanlegt einingarverð Íslandspósts. Ástæða þess er sú að frá því að upphaflegt erindi Íslandspósts barst hefur gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar hækkað tvisvar (vegna kostnaðarhækkana, magnminnkunar og verðlagsbreytinga). Auk þess byggir sú nálgun sem PFS leggur til í samráðsskjalinu að hluta til á öðrum forsendum en eru í upphaflegu erindi Íslandspósts.

Ef þær athugasemdir sem berast PFS í samráðinu nú gefa ekki tilefni til að breyta í stórum dráttum þeirri uppsetningu á gjaldskrá og afsláttarskilmálum sem hér eru lögð fram til samráðs mun PFS leggja fyrir Íslandspóst að fyrirtækið reikni nýtt grunnverð fyrir A og B póst miðað við þær forsendur sem lagt er til að taki gildi. Stofnunin mun síðan yfirfara útreikningana, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.

Frestur til að koma að athugasemdum við þá aðferðafræði sem hér er lögð til er til 2. janúar 2012.

Stofnunin mun fara yfir þær athugasemdir sem berast m.t.t. hugsanlegra breytinga á uppsetningu gjaldskrár sem og afsláttarskilmálum áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Sjá nánar:

 

 

Til baka