Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði vegna fyrirhugaðrar breytingar Símans á viðmiðunartilboði um samtengingu talsímaneta (RIO)

Tungumál EN
Heim
18. október 2011

Þann 31. ágúst sl. óskaði Síminn eftir samþykki PFS fyrir breytingu á viðmiðunartilboði félagsins um samtengingu talsímaneta. Fyrirhugað væri að bæta við skilgreiningu um beintengingu farsímaneta þar sem fallið yrði frá umflutningsgjöldum gegn því að viðsemjandi hagaði gjaldtöku sinni með sama hætti.  Breytingin yrði í viðauka 3a við viðmiðunartilboð Símans um samtengingu talsímaneta, útgáfu 3.6 frá 1. ágúst 2011

Farið er fram á að eftirfarandi texta yrði bætt við lið 2.2.4 (Umflutningur símaumferðar) í viðauka 3a (Þjónusta samnings):

„Skilgreind staðsetning á samtengipunkti fyrir farsímanet Símans er í talsímaneti félagsins. Gefst viðsemjanda þannig kostur á beintengingu farsímaneta. Síminn innheimtir í samræmi við það ekki umflutningsgjöld fyrir umflutning umferðar frá öðrum kerfum til farsímanets Símans um talsímanet félagsins, en áfram verður greitt fyrir umflutning Símans í kerfi þriðja aðila um talsímanet Símans. Ofangreint fyrirkomulag Símans við gjaldtöku fyrir umflutning er þó háð því að viðsemjandi hagi gjaldtöku sinni fyrir umflutning gagnvart Símanum með sama hætti.“

Áður en lengra verður haldið óskar PFS eftir viðbrögðum fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við ofangreindum fyrirtætlunum Símans.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 8. nóvember 2011. Umsagnir skal senda til Óskars H. Ragnarssonar lögfræðings PFS (oskarh(hjá)pfs.is).   

Sjá viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta ásamt viðaukum á vef Símans

 

 

Til baka