Hoppa yfir valmynd

Nova braut gegn trúnaðarskyldum sínum með því að hagnýta sér samtengiupplýsingar frá Símanum

Tungumál EN
Heim
13. júlí 2011

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 23/2011 varðandi brot Nova á trúnaðarskyldum sínum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga.

Málið varðaði kvörtun Símans vegna meintra brota Nova á trúnaðarskyldum félagsins með því að nota fjarskiptaumferðarupplýsingar í öðrum tilgangi en gert er ráð fyrir í 26. gr. fjarskiptalaga og samtengisamningi félaganna. Nova safnaði saman upplýsingum um fjölda símtala úr þjónustuveri Símans í viðskiptavini Nova á hálfs árs tímabili og afhenti Samkeppniseftirlitinu sem innlegg í rannsókn stofnunarinnar á meintu broti Símans á samkeppnislögum. Nova hafði öðlast umræddar upplýsingar í tengslum við framkvæmd samtengisamnings félaganna.

Niðurstaða PFS var sú að Nova hefði brotið gegn 26. gr. fjarskiptalaga, 3. mgr. 9. gr. samtengisamnings Símans og Nova og jafnræðiskvöð þeirri sem lögð hefði verið á félagið með ákvörðun PFS nr. 18/2010, með því að hagnýta sér fjarskiptaumferðarupplýsingar sem vörðuðu heildsölusamskipti fyrirtækjanna í öðrum tilgangi en þar væri til ætlast. Nova hefði verið óheimilt að vinna og nýta upplýsingarnar í ofangreindum tilgangi þar sem tilgangurinn með veitingu þeirra hefði aðeins verið sá að gera samtengingu á heildsölustigi mögulega, ásamt eftirfarandi greiðsluuppgjöri. Því hafi Nova verið óheimilt að vinna og veita Samkeppniseftirlitinu aðgang að umræddum upplýsingum, en sú stofnun hafði ekki óskað eftir umræddum upplýsingum í samræmi við eftirlitsheimildir sínar.

PFS fyrirskipaði Nova að eyða öllum gögnum um fjarskiptaumferð sem safnað hefði verið um símtöl úr þjónustuveri Símans í símanúmer í farsímaneti Nova og setja sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við ákvæði 7. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga og skilyrði sem Persónuvernd kann að setja. Reglurnar skulu bornar undir PFS til samþykktar eigi síðar en 1. október n.k.   

 

Sjá ákvörðunina í heild: Ákvörðun PFS nr. 23/2011 varðandi brot Nova á trúnaðarskyldum samkvæmt 26. gr. fjarskiptalaga

Til baka