Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts vegna breytinga á dreifikerfi fyrirtækisins

Tungumál EN
Heim
13. október 2011

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þann 10. október sl. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 16/2011.

Málið varðar breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts, sem fyrirtækið tilkynnti PFS með bréfi, dags. 3. maí 2011. Með skilmálabreytingunni er tekið upp svokallað XY dreifingarkerfi, sem felur í sér að hverju póstburðarhverfi er skipt í tvennt (XY). Almennum pósti er dreift daglega í allt hverfið, þ.e. bæði X og Y hluta þess, en pósti frá stórnotendum er fyrri daginn dreift í annan helming hverfisins en hinum helmingnum er dreift degi siðar.  Póstmarkaðurinn ehf. kærði ákvörðun PFS í málinu  til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og hefur nefndin nú kveðið upp úrskurð sinn.

Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að umframafslættir til stórnotenda séu háðir því skilyrði að skriflegur samningur sé gerður fyrirfram. Að mati nefndarinnar fer það ekki gegn 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 að umframafsláttur sé háður því skilyrði að dreifing fari að jafnaði fram á 2. og 3. virka degi eftir móttöku. Leit nefndin þá einnig til þess að lægri afsláttur er í boði hjá Íslandspósti fyrir dreifingu á skemmri tíma samkvæmt magngjaldskrá.

Þá féllst nefndin ekki á þau sjónarmið kæranda að engin rannsókn hafi farið fram af hálfu PFS á kostnaðarlegu hagræði af lengri dreifingartíma í tilviki stórnotenda, en í úrskurðinum segir m.a.:

„… er ljóst af hinni kærðu ákvörðun að stofnunin hefur farið yfir og metið forsendur Íslandspósts fyrir kostnaðarhagræði af XY-dreifikerfinu og metið það sem svo að til þess að ná fram umræddu kostnaðarhagræði, bæði í dreifingu og flokkun, fari flokkun á pósti frá stórnotendum fram degi eftir móttöku og dreifing eigi sér stað á 2. og 3. degi.“

Jafnframt taldi nefndin að umrætt fyrirkomulag færi ekki gegn 3. mgr. 31. gr. laga um póstþjónustu þar sem fjallað er um dagstimplun póstsendinga og að gæðaviðmiði hinnar kærðu ákvörðunar varðandi póst frá stórnotendum væri ætlað að tryggja jafnræði milli allra stórnotenda, hvort sem þeir stunda póstmiðlun eða skipta beint við Íslandspóst.

Með vísan til framangreinds og sjónarmiða sem nánar eru tilgreind í úrskurðinum var ákvörðun PFS nr. 16/2011 staðfest.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild (PDF)

 

 

Til baka