Hoppa yfir valmynd

PFS birtir ákvörðun um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum

Tungumál EN
Heim

PFS birtir ákvörðun um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum

17. nóvember 2010

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 36/2010 um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum.
Með bréfi þann 8. september 2010, tilkynnti Íslandspóstur um breytingar á skilmálum fyrirtækisins er varða dreifingu á magnpósti frá stórnotendum sem fá umfram afslætti skv. sérstakri afsláttarverðskrá. Samkvæmt hinum nýju skilmálum fer dreifingin fram á tímabilinu fyrsta til fimmta virka degi eftir móttöku.

PFS gerir ekki athugasemdir við þessar breytingar. Í ákvörðun stofnunarinnar segir m.a. að stórnotendur fái viðbótarafslátt allt að 11 prósentustig ofan á hæstu afsláttarprósentu sem í gildi er fyrir almennan magnpóst. Þessi munur á afsláttarkjörum verður ekki skýrður að öllu leyti nema með lengri dreifingartíma sem fyrirtækið áformar að gera að almennri reglu.

Þá horfir stofnunin einnig til þess að þessir viðskiptavinir Íslandspósts geti hér eftir sem hingað til póstlagt bréf samkvæmt hinni almennu verðskrá fyrir magnpóst, sem veiti rétt til afsláttar allt að 30% og tryggir a.m.k. 85% dreifingu daginn eftir póstlagningu.

Í niðurstöðu PFS er einnig vikið að því að hvorki 21. gr. laga um póstþjónustu né 10. gr. reglugerðar um alþjónustu verði skýrðar þannig að aðeins sé leyfilegt að bjóða upp á einn vöruflokk hér á landi. Báðar þessar greinar kveða á um að póstur sem fellur undir alþjónustu skuli borinn út alla virka daga. Þá telur stofnunin einnig að þær gæðakröfur sem í gildi eru, um að 85% af innanlandspósti í hraðasta flokki sé borinn út daginn eftir póstlagningu (D+1) komi ekki í veg fyrir að hægt sé að bjóða ódýrari þjónustuleiðir/vöruflokk en A-póst.

Íslandspóstur skal, í vinnuferlum sínum, tryggja að allur póstur sem kemur inn til dreifingar hjá fyrirtækinu samkvæmt afsláttarverðskrá fyrir stórnotendur fái samskonar dreifingu, með það að markmiði að tryggja jafnræði viðskiptavina fyrirtækisins.  Skal fyrirtækið senda stofnuninni lýsingu á viðeigandi vinnuferlum, áður en boðuð breyting tekur gildi.

 

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 36/2010 um breytingar á skilmálum Íslandspósts vegna dreifingar á pósti frá stórnotendum (PDF)

 

 

Til baka