Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um skráningu á kóðum í gagnagrunn HÍN

Tungumál EN
Heim
20. júní 2011

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þann 10. júní sl. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 40/2010 um skráningu á tilteknum kóðum í gagnagrunn Hins íslenska númarafélags ehf. (HÍN).

Í ákvörðun sinni hafði PFS hafnað skráningunni af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi að skráningin gengi gegn því fyrirkomulagi sem gildir um aðgreiningu á annars vegar endursöluaðila og hins vegar sýndarnetsaðila samkvæmt fyrri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 4/2007, sbr. og ákvörðunum nr. 19 og 20/2009. Í öðru lagi væri hún í andstöðu við 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 450/2008 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta, sem kveður á um í allri fjarskiptaþjónustu, sem sækir skipulag númera og vistfanga til tilmæla ITU, eigi eingöngu að nota númer, kóða og vistföng sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað. Í þriðja lagi væri um að ræða ólögmætt framsal á réttindum samkvæmt 7. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og a.-lið 2. mgr. 11. gr. fyrrnefndra reglna nr. 450/2008 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta.

Í úrskurði úrskurðarnefndar var ekki fallist á frávísunarkröfu PFS og talið að kærandi hefði lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um skráningu á umræddum kóðum, þó svo að númerin sem stæði til að merkja væri í umráðum annars fjarskiptafyrirtækis, en aðgangur að þeim var veittur á grundvelli endursölusamnings. Ekki var vikið sérstaklega að því hvort skráningin fæli í sér ólögmætt framsal á réttindum til umræddra númera.  

Hins vegar féllst úrskurðarnefndin á þann lagaskilning PFS að skráning á kóðum í HÍN, sem bætast við símanúmer og mynda samfelldan talnastreng, falli undir eftirlitsvald stofnunarinnar, en hún úthlutar númerum og kóðum til nota í fjarskiptaþjónustu innan lögsögu íslenska ríkisins, sbr. 15. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og reglur  nr. 450/2008 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta. Þá tók nefndin undir það sjónarmið PFS að umrædd skráning væri andstæð þeirri aðgreiningu sem rétt er að gera milli annars vegar endursöluaðila, sem ekki býr yfir viðeigandi búnaði og aðstöðu til að veita farsímaþjónustu á eigin vegum, og hins vegar sýndarnetsaðila, sem hefur yfir að ráða símstöð fyrir farsímaþjónustu, en í úrskurðinum segir m.a. eftirfarandi:

„Úrskurðarnefnd tekur undir sjónarmið PFS um að með því að endursöluaðili fái sérstakan auðkenniskóða í gagnagrunni HÍN sé gefið til ákveðið sjálfstæði sem hann nýtur ekki í raun, þar sem hann er ekki sýndarnetsaðili. Með vísan til framgreinds telur úrskurðarnefnd að með sérstökum auðkenniskóða kæranda í HÍN sé farið gegn aðgreiningu endursölu- og sýndarnetsaðila á fjarskiptamarkaði. Kærandi virðist með skráningu eigin kóða í HÍN vera að koma sér í stöðu sýndarnetsaðila, án þess að hafa símstöð í farsímakerfi og þar með að vissu leyti torvelda eftirlit með fjarskiptastarfseminni.“

Með vísan til framangreinds og sjónarmiða sem nánar eru tilgreind í úrskurðinum var ákvörðun PFS nr. 40/2010 staðfest. 

Sjá úrskurðinn í heild:

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 1/2011 (PDF)

 

 

Til baka