Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Ákvörðun PFS vegna kvartana um reikningagerð Hringdu ehf.

2. nóvember 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 28/2012, vegna tveggja kvartana um reikningagerð Hringdu ehf. Töldu báðir kvartendur að reikningagerð á vegum fyrirtækisins uppfyllti ekki kröfur reglugerðar nr. 526/2011 um reikningagerð, þar sem þeim bærust ekki sundurliðaðir reikningar frá félaginu og væri því ókleift að sjá hvað lægi að baki þeirri heildarfjárhæð sem þeim væri gert að greiða fyrir þjónustu félagsins.

PFS benti Hringdu m.a. á að út frá skýru orðalagi 38. gr. fjarskiptalaga væri ljóst að áskrifendur tal- og farsímaþjónustu ættu rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða, frá þeim fjarskiptaþjónustuaðila sem þeir eiga viðskipti við. Vísaði stofnunin í því sambandi til áðurnefndrar reglugerðar nr. 526/2011. Taldi PFS það því engum vafa undirorpið að í gildi væru skýrar reglur fyrir fjarskiptafyrirtæki um birtingu, fyrirkomulag og gerð reikninga fyrir fjarskiptaþjónustu, enda hljóti það að teljast grundvallarforsenda allra viðskipta að fyrirtæki sendi reikning til viðskiptamanna sinna vegna aðkeyptrar þjónustu, þar sem fram kemur með skýrum hætti fyrir hvað viðkomandi reikningur stendur, og viðskiptavinurinn sé þannig upplýstur um sín kaup og kjör hverju sinni.

Það er því m.a. niðurstaða PFS að sú háttsemi Hringdu ehf. að sundurliða ekki reikninga kvartenda hafi brotið gegn 1. mgr. 38. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, sbr. 6. gr. og 7. gr. reglugerðar nr. 526/2011, um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu.

Er fyrirtækinu gert að endurskoða reikingagerð sína með tilliti til ofangreindrar reglugerðar.  Ennfremur skal fyrirtækið upplýsa Póst- og fjarskiptastofnun um fyrirkomulag félagsins að því er varðar birtingarhátt reikninga til viðskiptavina sinna almennt, auk þess sem því ber að afhenda stofnuninni almenna og staðlaða fyrirmynd að reikningum félagsins fyrir 30. desember n.k

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 28/2012 vegna kvartana um reikningagerð Hringdu ehf. (PDF)

 

 

Til baka