Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

Tungumál EN
Heim
7. júní 2011

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína nr. 17/2011 þar sem stofnunin samþykkir beiðni Íslandspósts hf. um hækkun gjaldskrár fyrir bréf innan einkaréttar. Með  erindi, dags. 29. mars sl., óskaði Íslandspóstur eftir samþykki PFS á hækkun á einkaréttarpósti um 27%, vegna magnminnkunar, aukinna afslátta og þess að kostnaður hafi ekki lækkað til samræmis við lækkandi tekjur.

Það er mat PFS að tilgreindar forsendur Íslandspósts fyrir verðhækkun séu ekki að öllu leyti fyrir hendi til að stofnunin geti samþykkt hækkunarbeiðni félagsins óbreytta. Á það við um þann hluta hækkunarbeiðninnar sem rökstuddur er með auknum  afslætti til stórnotenda. En stofnunin fellst ekki á þau rök Íslandspósts að auknir afslættir til stórnotenda geti verið grundvöllur undir hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar.

PFS telur efni standa til þess að samþykkja 20% hækkun gjaldskrár einkaréttarpósts til að mæta versnandi afkomu á grundvelli framlagðra gagna um kostnaðar- og magnþróun í einkaréttarþjónustu Íslandspósts.

Samhliða verðhækkun er óhjákvæmilegt að Íslandspóstur leiti áfram leiða til að hagræða í rekstri innan einkaréttar sem og á öðrum sviðum til að mæta tekjulækkun vegna minnkandi magns, sem er m.a. tilkomið vegna aukinna rafræna samskipta fyrirtækja og stofnana við viðskiptavini sína auk þess sem leiða má líkum að því að fjármálakreppan hér á landi hafi einnig haft áhrif á minnkandi póstmagn. En heildarmagn pósts hefur minnkað um 20% frá árinu 2008 til ársins 2010 og fyrirsjáanlegt að sú þróun muni halda áfram. Sama þróun hefur orðið í öðrum löndum í Evrópu. Nýleg innleiðing XY-dreifikerfis, með tilheyrandi sparnaði fyrir Íslandspóst, var að mati PFS nauðsynleg aðgerð til að mæta minnkandi magni bréfapósts innan einkaréttar, en án hennar er ljóst að hækkun á bréfum innan einkaréttar hefði þurft  að vera meiri en ella ( sjá ákvörðun PFS nr. 16/2011).

Engar breytingar voru gerðar á núgildandi afsláttarkjörum til stórnotenda.

Burðargjald fyrir 50 gr. bréf fer úr 75 kr. í 90 kr. með þeirri hækkun sem nú er samþykkt. Þrátt fyrir þessa hækkun eru burðargjöld hér á landi fyrir póst innan einkaréttar ennþá með þeim lægstu á Norðurlöndunum.

Nánari rökstuðning fyrir samþykkt PFS á beiðni Íslandspósts er að finna í ákvörðuninni sjálfri sem má nálgast hér fyrir neðan.

Ákvörðun PFS nr. 17/2011 - Erindi Íslandspósts hf., dags. 29. mars 2011, um hækkun á gjaldskrá fyrir bréf innan einkaréttar

Til baka