Póst og fjarskiptastofnun

Túngumál EN
Heim

Íslendingar virkir þátttakendur í nýrri Evrópustofnun um netöryggi

31. mars 2005

Íslendingar og aðrar EFTA-þjóðir verða virkir þátttakendur í nýrri Evrópustofnun um net- og upplýsingaöryggi sem er að taka til starfa. Stofnunin ENISA (European Network and Information Security Agency) á að tryggja öryggi í netþjónustu og gagnaflutningum á evrópska efnahagssvæðinu, samræma lög og reglur og veita stjórnvöldum, stofnunum og fyrirtækjum sérfræðiráðgjöf.   

Að tillögu samgönguráðherra samþykkti íslenska ríkisstjórnin aðild að ENISA-stofnuninni í mars 2004, en þá lá fyrir formleg ákvörðun hjá framkvæmdastjórn ESB um að koma henni á fót. Í byrjun þessa árs tókust samningar um að EFTA-ríkin fengju fulltrúa í stjórn stofnunarinnar, en þau höfðu lagt mikla áherslu á að öðlast slíkan sess. Fulltrúar Íslands, Lichtenstein og Noregs sóttu nýlega fyrsta stjórnarfund ENISA, en afar brýnt er að EFTA-ríkin séu virkir þátttakendur í þessu samstarfi, fylgist náið með nýjungum og afli og miðli upplýsingum til hagsmunaaðila á markaði. Þetta er ekki síst knýjandi nauðsyn fyrir Íslendinga, sem samkvæmt alþjóðlegum könnunum standa flestum þjóðum framar í að nýta tölvu- og upplýsingatækni. Alþjóðlegt samstarf um net- og upplýsingaöryggi (UT-öryggi) er lykilatriði ef takast á að afstýra skemmdarverkum og tryggja áreiðanlega gagnaflutninga á Netinu, til hagsbóta fyrir neytendur, fyrirtæki og stofnanir.

Á þessu ári verður megináherslan lögð á að skipuleggja starfsemi ENISA til frambúðar og mun sú vinna byggja á niðurstöðum ítarlegrar könnunar sem nýlega var gerð í stjórnsýslu allra ríkja á evrópska efnahagssvæðinu. Ráðnir verða 44 starfsmenn, flestir í apríl 2005, og er stefnt að því að starfsemin verði komin á fullt skrið síðla árs. Stofnunarinnar bíða viðamikil verkefni m.a. við að samræma stefnuna, en skoðanir aðildarríkja á því hvernig beri að forgangsraða verkefnum eru eðlilega afar ólíkar.  

Sjá frekari upplýsingar um ENISA
Einnig veitir Hörður Halldórsson, Alþjóðadeild PFS upplýsingar í síma: 5101500 

Til baka