Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á leigulínumarkaði

Túngumál EN
Heim

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á leigulínumarkaði

3. apríl 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun er lýtur að markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6). Þann 21. mars sl.efndi PFS til samráðs við ESA um framangreindan markað og smásölumarkað fyrir lágmarksframboð af leigulínum (áður markaður 7). Þann 24. mars sl. afturkallaði PFS framangreint samráð við ESA vegna markaðar 6 þar sem láðst hafði að fjalla um athugasemdir eins markaðsaðila sem fram komu í innanlandssamráði um viðkomandi markað. Nú hefur verið bætt úr því. PFS mun efna til innanlandssamráðs um þriðja og síðasta leigulínumarkaðinn, þ.e. heildsölumarkað fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14), á næstu vikum. 

PFS hyggst viðhalda útnefningu Mílu, sbr. ákvörðun PFS nr. 20/2007, sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6) og álagningu viðeigandi kvaða á félagið. Þrátt fyrir innkomu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og fleiri staðbundinna netrekenda er markaðshlutdeild Mílu enn um 70-80% samkvæmt algengustu viðmiðum um markaðshlutdeild og eru enn verulegar aðgangshindranir ríkjandi á viðkomandi markaði að mati PFS. 

Lúkningarhluti leigulína er skilgreindur sem aðgangsmarkaður á heildsölustigi fyrir stöðuga afkastagetu á merkjasendingum á þeim hluta fjarskiptanetsins þar sem notandinn hefur einn aðgang að allri tengingunni. Markaðurinn liggur á milli notandans (heimili eða fyrirtæki) og hnútpunkta/símstöðva og tengja notendur við einn punkt þar sem stofnlínukerfið tekur við. Þessi sambönd eru leigð öðrum fjarskiptafyrirtækjum sem gerir þeim kleift að veita þjónustu á ýmsum smásölumörkuðum eins og t.d. talsímaþjónustu, internetþjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu. Markaðurinn nær yfir bæði stafrænar og hliðrænar línur og sambönd með allri mögulegri tækni og flutningsmiðlum. Flutningsmiðlar geta verið svartur ljósleiðari (ljósleiðari án endabúnaðar), kopar og þráðlaus sambönd. Fyrrgreindur heildsölumarkaður fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14) nær hins vegar yfir tengileiðir milli símstöðva og dreifingarstaða. 

Drög að ofangreindri ákvörðun eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun um viðkomandi markað nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni, en innanlandssamráð um þau stóð yfir frá 27. nóvember 2013 til 20. janúar sl.


Sjá samráðsskjölin á ensku og íslensku:

Skjölin á íslensku:
Skjölin á ensku:
M6 - Drög að ákvörðun PFS  M6 - PTA Draft Decision
M6 - Viðauki A - Markaðsgreining
 M6 - Appendix A - Market Analysis
M6 - Viðauki B - Niðurstöður úr innanlandssamráði
 M6 - Appendix B - Conclusions from consultation

Til baka