23. júní 2005
Rétt að benda farsímanotendum á að mikill munur getur verið á gjaldskrám fyrir símnotkun erlendis og heima fyrir. Því er skynsamlegt að kynna sér vel verð fyrir reikiþjónustu og aðra símþjónustu í því landi sem ferðast er til.
Nokkrar ábendingar
- Í útlöndum greiðir farsímanotandinn hvort heldur er fyrir þau símtöl sem hann hringir sjálfur og þau símtöl sem honum berast. Öll símtöl fara í gegnum símgátt þjónustufyrirtækins á Íslandi, líka ef hringt er í vin eða ættingja sem eru með notandanum á ferðalagi og eru með honum í vinaáskrift. Gjaldskrá þess fyrirtækis sem íslenska símafyrirtækið hefur gert reikisamning við gildir fyrir alla símnotkun að viðbættu 20 % þjónustugjaldi og 24,5% virðisaukaskatti. Það kostar því töluvert meira að hringja erlendis frá til Íslands, en það kostar að hringja innanlands.
- Það kostar líka meira að taka á móti skilaboðum úr símsvaranum heima þegar dvalið er erlendis og jafngildir það millilandasímtali að hringja í talhólfið. Því er rétt að kynna sér fyrirfram á hvaða kjörum hægt er að nýta símsvarann á meðan dvalið er í útlöndum.
- Það kostar jafnan meira að senda textaskilaboð frá útlöndum og heim heldur en innanlands.
- Hægt er að nota flest fyrirframgreidd símkort í útlöndum, en það getur þurft að skrá sig fyrir slíkri þjónustu áður en lagt er í ferðalag. Því er mælt með því að notendur fyrirframgreiddra korta kynni sér kjörin og gangi úr skugga um það hjá þjónustufyrirtækinu hvort þeir geti notað þau í því landi sem ferðast er til.
- Í mörgum tilfellum getur komið sér vel fyrir farsímnotendur að velja sjálfir hvaða þjónustufyrirtæki þeir vilja nota á meðan þeir dveljast erlendis. Það gildir ekki síst um þá sem ferðast utan Evrópu. Forsendan er þó að þjónustufyrirtækið heima hafi gert reikisamning við fleiri en eitt símafyrirtæki í því landi sem ferðast er til. Því er rétt að kynna sér reikisamninga þjónustufyrirtækisins og bera saman gjaldskrá þeirra erlendu símafyrirtækja sem það hefur samið við. Í leiðbeiningum um notkun flestra farsíma eru upplýsingar um hvernig hægt er að velja farsímanet í útlöndum, telji notandinn að sú reikiþjónusta sem sjálfkrafa kemur upp, sé ekki sú ódýrasta.
- Kynntu þér vel á hvaða kjörum þú getur notað farsímann þinn í útlöndum. Á vefsíðum íslensku símafyrirtækjanna eru upplýsingar um alla reikisamninga og gjaldskrár þeirra símafyrirtækja sem þau hafa samið við og sérkjör sem hægt er að skrá sig fyrir þegar ferðast er erlendis.